Tindastóll vann gríðarlega mikilvægan sigur á Njarðvík í Dominos deildinni í kvöld á Sauðárkrók.
Leikurinn átti að fara fram fyrir viku síðan en var frestað vegna veðurs. Ekkert var að veðri í dag og Njarðvíkingar renndu norður í blíðunni og ætluðu sér stóra hluti gegn brothættu Tindastólsliði. Gestirnir byrjuðu leikinn af miklum krafti og keyrðu yfir heimamenn sem gekk mjög illa að finna körfuna til að byrja með. Eftir rúmar 2 mínútur var staðan orðin 0-9 fyrir Njarðvík og Costa tók leikhlé. Það gekk ekki alveg strax að koma liðinu í gang og gestirnir komust í 2-13 áður en Tindastólsvélin hrökk í gang og náði 14-0 áhlaupi og staðan skyndilega orðin 16-13. Liðin skiptust á að taka rispur í fyrri hálfleik og Njarðvíkingar komust tíu stigum yfir í byrjun annars leikhluta en Stólarnir náðu aftur áttum og jöfnuðu með tveimur risaþristum frá Gurley sem átti góðan leik í kvöld. Njarðvík var þó yfir í hálfleik.
Í seinni hálfleik var allt í járnum og liðipn skiptust á að hafa forystuna og aldrei varð hún mikil. Varnarleikur beggja var ákafur og harður og leikurinn skemmtilegur á að horfa. Vélin hrökk svo aftur í gang hjá heimamönnum þegar tæpar 6 mínútur voru eftir og Svavar Atli kom þeim yfir með þristi langt utan af velli 73-70. Húsið tók við sér og heimamenn litu vart um öxl eftir þetta og voru fljótlega komnir í átta stiga forystu og aðeins 3 mínútur eftir. Njarðvíkingar gerðu heiðarlega tilraun til að ná þeim en allt kom fyrir ekki og sterk vörn og gríðarleg barátta sigldu sigri í höfn í Síkinu.
Texti og myndir: Hjalti Árnason
Mynd: Helgi Rafn var sterkur í kvöld
Tindastóll-Njarðvík 88-79 (20-23, 20-20, 20-18, 28-18)
Tindastóll: Darrel Keith Lewis 22/4 fráköst, Anthony Isaiah Gurley 21/4 fráköst, Myron Dempsey 16/5 fráköst, Helgi Rafn Viggósson 10/7 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 7/8 stoðsendingar, Svavar Atli Birgisson 5/4 fráköst, Viðar Ágústsson 4, Ingvi Rafn Ingvarsson 3, Hannes Ingi Másson 0, Helgi Freyr Margeirsson 0, Sigurður Páll Stefánsson 0, Darrell Flake 0.
Njarðvík: Jeremy Martez Atkinson 21/11 fráköst, Logi Gunnarsson 20, Haukur Helgi Pálsson 12/6 fráköst, Oddur Rúnar Kristjánsson 10, Hjörtur Hrafn Einarsson 7, Ólafur Helgi Jónsson 5, Maciej Stanislav Baginski 4, Snjólfur Marel Stefánsson 0, Adam Eiður Ásgeirsson 0, Hilmar Hafsteinsson 0, Oddur Birnir Pétursson 0.
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Ísak Ernir Kristinsson