Jonathan Mitchell, leikmaður ÍR í Domino’s deild karla mun ekki leika meira með liðinu í vetur. Þetta staðfesti Elvar Guðmundsson, formaður körfuknattleiksdeildar ÍR í samtali við Karfan.is í dag. Ástæðuna segir Elvar vera veikindi hans en Mitchell fékk slæma lungnabólgu á dögunum sem haldið hefur honum frá leik síðan í byrjun mánaðarins.
Þetta eru ekki góðar fréttir fyrir ÍR því Mitchell leiðir liðið í stigum og fráköstum auk þess að vera í topp 10 í stigum, fráköstum og framlagi í allri deildinni. Mitchell skoraði 26,4 stig að meðaltali í leik fyrir ÍR að viðbættum 11,1 frákasti og 29,2 framlagspunktum.
ÍR-ingar verða því án erlends leikmanns það sem eftir lifi leiktíðar því leikmannaskiptaglugginn lokaðist um síðustu mánaðamót en ekkert hefur verið ákveðið með næstu leiktíð. “Það er áhugi hjá báðum aðilum en ekkert staðfest enn,” sagði Elvar í spjalli við Karfan.is.