Atli Aðalsteinsson leikmaður Skallagríms fór úr axlarlið í kvöld í viðureign Fjölnis og Skallagríms í úrslitum 1. deildar karla. Atvikið átti sér stað þegar ríflega tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.
Atli var fluttur á sjúkrahús þar sem í ljós kom að hann reif einnig liðpoka í öxlinni og vökvi kom inn á liðinn. „Tímabilinu er því miður lokið hjá Atla en hann verður stoð okkar og stytta á bekknum,“ sagði Finnur Jónsson þjálfari Skallagríms við Karfan.is í kvöld.
Á dögunum hlaut Atli högg á öxlina og lék með teip í kvöld eins og meðfylgjandi mynd sýnir og hefur því líklega verið veikur fyrir þegar hann fær högg á öxlina í kvöld og fer úr lið með áðurgreindum afleiðingum.
Myndir/ Bára Dröfn – Á neðri myndinni er Pálmi Þór Sævarsson aðstoðarþjálfari að hlúa að Atla í Dalhúsum í kvöld.