12:14
{mosimage}
Körfuknattleiksmaðurinn Logi Gunnarsson hefur farið gríðarlega vel af stað með nýja félaginu sínu ToPo Helsinki. Logi er búinn að leika þrjá leiki með liðinu og skora í þeim 77 stig, eða 25,7 stig að meðaltali.
Stjórnarmenn félagsins eru svo ánægðir með Loga að þeir segjast vera tilbúnir að bjóða honum nýjan samning en ekki er nema rúm vika síðan Logi skrifaði undir samning við félagið sem gildir út yfirstandandi leiktíð.
Það var gott hljóð í Loga þegar Fréttablaðið náði tali af honum í gær. „Byrjunin er búin að vera bara mjög fín og ég er mjög ánægður með þetta. Ég var staðráðinn í að standa mig en þetta er bara rétt að byrja, það eru enn 40 leikir eftir af tímabilinu," sagði Logi en finnska deildin þykir nokkuð sterk á evrópskan mælikvarða. „Þetta er tvímælalaust betri deild en sú sem ég lék í í fyrra, sem var önnur deildin í Þýskalandi." Allir leikir Loga hingað til með ToPo hafa verið á útivelli en á miðvikudaginn leikur Logi sinn fyrsta heimaleik með liðinu.
„Formaður ToPo er búinn að gefa íslenska sendiráðinu í Helsinki 30 eða 40 miða fyrir leikinn á miðvikudaginn og það mætir vonandi fullt af Íslendingum á leikinn. Þessi klúbbur er eitt af þeim þremur stærstu í Finnlandi. Það er góð umgjörð í kringum leikina og það er líka vel mætt á þá. Körfuboltinn er mjög vinsæll hérna en íshokkí er langvinsælasta íþróttin í Finnlandi," sagði Logi en Falur Harðarson lék með ToPo um tíma árið 2000. Þjálfari ToPo er aðstoðarlandsliðsþjálfari finnska landsliðsins og tók eftir Loga þegar Íslendingar léku gegn Finnum.
„Stjórnarmennirnir eru það ánægðir með mig að þeir eru strax farnir að tala um nýjan samning áður en ég er búinn að spila einn heimaleik. Þeir vilja að ég skrifi undir stærri og lengri samning og eru búnir að hafa samband við umboðsmanninn minn. Ég sagði nú við þá að ég vildi bíða aðeins og sjá hvað gerist á næstu vikum. Ég er ekki ennþá kominn með íbúð, ég bý enn á hóteli," sagði Logi, sem er með samning við ToPo út leiktíðina.
Frétt tekin af www.visir.is