spot_img
HomeFréttirTíðindalítið í Keflavík

Tíðindalítið í Keflavík

Það var fátt um fína í Keflavík þegar heimamenn sigruðu Hamar 107:100 eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik. Hápunktur kvöldins var líklega ein ótrúlegasta flautukarfa vetrarins þegar Andre Dabney skoraði síðustu stig gestanna.
 Strax eftir 3 mínútur voru bæði lið komin með 10 stig sitt hvor og Hamarsmenn í sinni svæðisvörn. Varnarleikur heimamanna var ekki uppá marga fiska og í stöðunni 10:13 gestina í vil vildi Guðjón SKúlason þjálfari fá að heyra aðeins í sínum mönnum sem voru frekar daufir.  Þeir voru eitthvað sprækari Keflvíkingarnir sem komu inná og voru fljótlega komnir í stöðuna 16:13. Hörður Axel Vilhjálmsson splæsti svo í dýrari týpuna af blokki þegar hann fór uppá þriðju hæð og varði skot frá Marvin Valdimarssyni.  En Hamarsmenn komu ekki til Keflavíkur til að láta að sér hæðast og áttu í fullu tré við heimamenn. 25:24 eftir fyrsta fjórðung og varnarleikurinn ekki í hávegum hafður hjá hvorugu liðinu.

Keflvíkingar keyrðu upp hraðann í leiknum í þeirri von að þreyta gestina en Hamarsmenn þökkuðu bara fyrir sig og fannst þetta tempó í fínu lagi.  Leikurinn var gríðarlega hraður í öðrum fjórðung og bæði lið að gera mistök. Staðan breytist lítið og staðan í hálfleik 47:45. Greinilegt að Hamarsmenn ætluðu sér í úrslitakeppnina.

Áfram hélt leikurinn og var kannski fátt um fína drætti framan af fyrri háleik. Liðin héldu áfram að skiptast á körfum þó svo að Keflvíkingar virtust alltaf vera í “bílstjórasætinu” Þegar líða tók á fjórðunginn fóru heimamenn að pressa og það einfaldlega var of mikið fyrir gestina. Keflvíkingar leiddu með  12 stigum eftir fjórðunginn og í stefndi að Keflvíkingar myndu taka þennan nokkuð auðveldlega.

Þegar 2:30 voru liðnar af fjórða fjórðung voru Keflvíkingar komnir í 20 stiga forskot 89:69 og aðeins spurning um hversu stór sigur þeirra yrði þetta skiptið. Hamarsmenn höfðu sýnt fram að þessu fína baráttu en bensínið virtist vera að þrotum.  Andre Dabney sýndi snilldar takta á lokaspretti leiksins þegar hann setti hverja körfuna á fætur annari í öllum regnbogans litum. Kappinn endaði leik með 38 stig og setti punktinn á loka leik Hamarsmanna með fáránlegri flautukörfu eftir að hafa verið í vandræðum með að missa boltann nánast útaf.  107:100 lokastaða leiksins og Keflvíkingar náðu öðru sæti deildarinnar en Hamarsmenn komnir í sumarfrí. 

Fréttir
- Auglýsing -