spot_img
HomeBikarkeppni"Þurfum að vera á tánum í hverjum einasta leik."

“Þurfum að vera á tánum í hverjum einasta leik.”

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari karlaliðs KR, var viðstaddur bikardráttinn í 16-liða úrslit Geysisbikarsins í hádeginu í dag. Þar drógust KR-ingar saman við Grindavík og munu þurfa að heimsækja Grindvíkinga í Mustad-höllinni í desember.

“Krefjandi leikur. Grindavík með flottan hóp og eru að verða sterkari og sterkari. Virkilega krefjandi verkefni sem að við ætlum okkur að klára.”

Hvernig undirbúa Íslandsmeistarnir til seinustu sex ára sig fyrir svona útsláttarleiki þar sem ein slæm frammistaða dugar til að koma mönnum úr keppni.

“Við eigum flott prógram í Dominosdeildinni áður en við förum í þetta. Einbeitum okkur að næsta leik, sem verða Stólarnir heima. Fáum góðan leik þar. Nóvember mánuður verður krefjandi og með þessum bikardrætti er útlit fyrir hörku prógram alveg fram að jólum.”

KR-ingar hafa aðeins verið að kljást við að halda öllum leikmönnum heilum og vantaði t.d. Kristófer Acox í liðið í seinasta deildarleik þar sem KR tapaði fyrir ÍR með einu stigi.

“Kristófer var bara veikur í síðasta leik. Þurfum fjögur hjól undir bílinn, en hnjask hér og þar í liðum er bara eins og gengur og gerist.”

Björn Kristjánsson hefur ekki enn spilað leik fyrir KR í deildarkeppninni á tímabilinu, er von á honum aftur?

“Ég vildi óska þess að hann væri með í næsta leik, en það verður bara að koma í ljós. Hann hefur ekki enn jafnað sig á þessum meiðslum sínum og fær vonandi fljótlega góða útkomu með þetta.”

Flest lið í deildinni vildu ólm leika eftir það sem ÍR-ingum tókst og vinna Íslandsmeistarana. Finna KR-ingar fyrir þeirri pressu?

“Þurfum bara að vera á tánum í hverjum einasta leik.”

Grindavík tekur á móti KR í Geysisbikar karla 2.-7. desember. Það verður vonandi hörkuleikur sem enginn ætti að missa af.

Fréttir
- Auglýsing -