spot_img
HomeFréttirÞrjú ár í röð!

Þrjú ár í röð!

Snæfell er Íslandsmeistara kvenna í körfubolta þriðja árið í röð. Þær komu, sáu og tóku, nei hrifsuðu þann stóra í sínar hendur er þær sigruðu Hauka 59-67 í þessum magnaða oddaleik sem var sannkallaður barningur. Það er ekki að ósekju að það sé talað um að vörn vinni titla og það gerði hún svo sannarlega í kvöld.

Fram að þessum leik hafði Snæfell ekki tekist að sigra Hauka í Schenkarhöllinni á þessu tímabili en heimaliðið hefur alltaf borið sigur úr bítum í viðureignum þeirra. Hólmarar ákváðu að leysa það með því að breyta Schenkerhöllinni bara í heimavöllinn sinn þar sem þeir troðfylltu sína stúku og sungu og klöppuðu allan leikinn. Stemningin var hreint út sagt mögnuð. Ég vona þó að einhver hafi verið eftir í Stykkishólminum í kvöld til að passa upp á bæinn og gefa gæludýrunum að borða.


Snæfell gerði Haukum lífið leitt í leiknum með frábærri vörn sem hvað eftir annað sló vopnin úr þeirra sóknarleik. Sóknarmeginn voru Snæfellsstúlkur ennþá erfiðari. Haiden Denise Palmer var sjóðandi með 10 stig í fyrsta leikhluta, Haukar gerðu allt sem þær gátu til að setja stopp á hana, sem tókst þar sem hún skoraði ekkert í 2. leikhluta og aðeins 2 stig í þriðja leikhluta. En það breytti engu fyrir Snæfell þar sem Bryndís Guðmundsdóttir steig aldeilis upp í öðrum leikhluta er hún setti 8 stig í röð á rétt tæpum tveimur mínútum. Haiden tók svo yfir í fjórða leikhluta þar sem hún setti 9 stig og skoraði alltaf þegar Haukar voru farnar að gera sig líklegar til að komast inn í leikinn. Berglind Gunnarsdóttir setti 8 stig í fjórða leikhluta og ísaði hún meðal annars leikinn fyrir Snæfell þegar hún setti niður þrjú stig með plús ein í stöðunni 55-62 með 33,6 sekúndur til leiksloka. Síðan var það Gunnhildur Gunnarsdóttir sem tók kannski aldrei yfir á neinum tímapunkti í stigaskorun en skoraði af miklu jafnvægi í hverjum leikhluta og endaði með 14 stig.

Tölfræðilega var ekki það mikill munur á liðunum. Bæði voru að hitta frekar illa, Haukar að skjóta 27% og Snæfell 34%. Haukar tóku töluvert fleiri fráköst en töpuðu boltanum þá oftar. Snæfell vann hins vegar andlega þáttinn, þegar hlutirnir voru ekki að ganga upp og allt var erfitt þá kom ekki upp ótti eða vonleysi, aðeins hungur og drifkraftur.

Það gekk ansi illa hjá Helenu Sverrisdóttur í fyrstu þremur leikhlutunum en hún var aðeins með 5 stig og 2 af 19 í skottilraunum. Hún var þó ekki tilbúin til að gefast upp og setti liðið sitt enn og aftur á herðar sér og reyndi að vilja fram enn einn sigurinn. Hún átti ansi magnaðann fjórða leikhluta þar sem hún skoraði 21 stig og setti niður 7 af 9 skotum sínum. Það var því miður ekki nóg, vörnin var ekki að halda nógu vel hjá Haukunum og áttu Snæfell nokkrar auðveldar körfur í fjórða leikhluta eftir að Helena var búin að hafa mikið fyrir sínum stigum hinu meginn.


Haiden var valin leikmaður leiksins þar sem hún var með 21 stig, 12 fráköst og 3 stoðsendingar ásamt 2 stolnum boltum.

Til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn Snæfell.

Tölfræði leiksins
Myndasafn eftir Báru Dröfn
Myndasafn eftir Þorstein

 

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -