Breiðablik hefur samið við sex leikmenn fyrir komandi átök í Subway deild kvenna í vetur. Þrír leikmenn framlengja samning sinn við félagið, en það eru þær Embla Hrönn Halldórsdóttir, Hera Magnea Kristjánsdóttir og Aníta Rún Árnadóttir.
Þá tilkynntu Blikar að þrír nýir leikmenn hefðu samið við félagið. Gréta Proppe Hjaltadóttir kemur í Kópavoginn frá ÍR-ingum, en hún er uppalin hjá Vestra. Tinna Diljá Jónasdóttir kemur aftur til Blika frá Stjörnunni, en hún er fædd 2008 og því gjaldgeng í 10. flokk. Loks kemur Sara Diljá Sigurðardóttir til félagsins frá Fjölni, þar sem hún lék síðast árið 2021.
Breiðablik endaði í næstsíðasta sæti Subway-deildarinnar á síðasta tímabili með fjóra sigra.