Ármann tilkynnti í kvöld að liðið hefði samið við þrjá öfluga leikmenn um að leika með liðinu í 2. deild karla. Það eru þeir Oddur Birnir Pétursson, Arnór Hermannsson og Skúli Gunnarsson. Ármenningar féllu úr leik í undanúrslitum 2. deildar karla á síðustu leiktíð og eru þessa dagana að safna liði fyrir komandi átök.
Tilkynningu Ármanns má finna í heild sinni hér að neðan:
Oddur Birnir Pétursson er 27 ára framherji sem kemur frá Val. Hann lék 16 leiki með liði Vals í Dominos deildinni á síðustu leiktíð ásamt því að verða Íslandsmeistari B-liða með Val B. Oddur er uppalinn hjá Njarðvík en hefur leikið með Val síðan 2016. Hann hefur leikið með öllum yngri landsliðum Íslands og er með mikla reynslu í efstu deildum karla.
Arnór Hermannsson er 23. ára bakvörður sem er uppalinn í KR þar sem hann vann marga titla í yngri flokkum. Hann var síðast á mála hjá KR og ÍR í Dominos deildinni tímabilið 2019-2020. Einnig hefur hann leikið með Breiðablik í efstu deild. Arnór hefur einnig leikið með öllum yngri landsliðum Íslands og var til að mynda hluti af U20 landsliði Íslands sem lenti í 8. sæti í A-deild evrópumótsins 2017.
Skúli Gunnarsson er 24. ára bakvörður sem leikið hefur síðustu ár með KV. Hann er uppalinn hjá KR þar sem hann var í öflugum árgangi. Auk þess hefur Skúli leikið með Val.
Þessir þrír leikmenn eru frábær viðbót í okkar öfluga lið. Það eru góðar fréttir að svo öflugir leikmenn sjái Ármann sem viðkomustað á þessum tímapunkti ferilsins og segir það mikið um þá uppbyggingu sem félagið er í. Á dögunum var tilkynnt að Gunnar Ingi Harðarson hefði samið við lið Ármanns og eru fleiri fregnir af leikmannamálum væntanlegar.
Við bjóðum þá félaga hjartanlega velkomna til Ármanns.