spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaÞriðji heimasigur Hrunamanna

Þriðji heimasigur Hrunamanna

Í kvöld var leikið í 1. deild karla. Á Flúðum mættu Hrunamenn nágrönnum sínum frá Selfossi. Selfyssingar unnu glæstan sigur á Haukum í síðustu umferð en féllu úr leik í bikarkeppninni gegn besta liði landsins um þessar mundir, Þór Þorlákshöfn. Hrunamenn steinlágu fyrir Skallagrími í Borgarnesi á þriðjudagskvöld og það var ljóst frá fyrstu sekúndu leiksins gegn Selfyssingum að það átti að gera betur nú. Hrunamenn skoruðu 92 stig gegn 71 stigi Selfyssinga.

Skynsemi, þolinmæði og samvinna eru orðin sem lýsa best leik og liðsbrag Hrunamanna í þessum leik. Þeir léku langar sóknir, boltinn gekk hratt og lengi á milli manna, bæði fyrir utan þar til þeir fundu besta möguleikann á skoti, en þeir spiluðu honum líka niður á póstinn, þrátt fyrir að leika án hins stóra og sterka Karlo Lebo. Clayton Ladine, leikstjórnandi þeirra, dreif mannskapinn áfram og var ákaflega líflegur á vellinum, stal boltum í vörninni, gaf fallegar sendingar og skoraði skemmtilegar körfur. Hann er sítalandi og peppandi menn áfram.

Fallegan samleik mátti oft sjá hjá Selfyssingunum. Þeir náðu sjaldan að hreyfa vörn heimamanna þannig að þeir ættu greiða leið í gegnum hana en þeir hreyfðu boltann oft hratt á milli sín og fengu mörg opin skot upp úr slíku spili. Oft rötuðu skot þeirra í körfuna hjá Hrunamönnum, einkum skot Gaspers Rojko sem skoraði 11 körfur úr opnum leik og samtals 29 stig. Gasper lék mjög vel í leiknum bæði í vörn og sókn, sérstaklega í fyrri hálfleik. Vito Smojer skoraði 15 stig og Trevon Evans 14. Þeir þrír voru langatkvæðamestir í Selfossliðinu. Aðrir leikmenn þess skoruðu ekki nema 13 stig samtals.

Munurinn á sóknarleik Hrunamanna og Selfoss í leiknum fólst m.a. í því að eftir því sem fleiri skot Selfyssinga misheppnuðust styttust sóknir þeirra og skotvalið varð verra. Það jók vitaskuld ekki nýtinguna, heldur þvert á móti. Svo vék trúin um að skotið myndi hitta og leikmennirnir tóku að reyna að þvinga árangurinn fram með einstaklingsframtaki. Þannig vinna lið ekki leiki.

Kent Hanson og Yngvi Freyr Óskarsson höfðu báðir átt dapran leik fyrir Hrunamenn í Borgarnesi í vikunni, en þeir voru frábærir í kvöld. Yngvi Freyr stóð í miðri svæðisvörninni og lokaði leiðinni að körfunni og þeir Kent stigu menn út og tóku samtals 20 fráköst. Yngvi Freyr var með yfir 70% skotnýtingu og skoraði 26 stig og vann fyrir 39 framlagstigum. Kent skoraði 28 stig.

Flestir leikmenn Hrunamanna lögðu eitthvað gott til, þeirra á meðal hinn 16 ára gamli Óðinn Freyr Árnason sem skoraði 8 stig á tæpum 11 mínútum og var annan leikinn í röð með 100% skotnýtingu. Auk þess lék Óðinn prýðilega í vörninni og stöðvaði nokkrar sóknir gestanna með því að loka sendingaleiðum, slæma höndunum í lausa bolta og trufla sendingar milli manna. Kristófer Tjörvi og Eyþór Orri mættu báðir með ákefð í varnarleikinn og skynsemi í sóknarleikinn.

Næsti leikur Hrunamanna verður eftir viku á Álftanesi. Selfyssingar fara í Borgarnes.

Tölfræði leiks

Önnur úrslit kvöldsins

Umfjöllun / Karl Hallgrímsson

Myndir / Birgitte Brugger

Fréttir
- Auglýsing -