spot_img
HomeFréttirÞrennukóngar tímabilsins

Þrennukóngar tímabilsins

Þreföld tvenna – eða að ná tveggja stafa tölum í þremur tölfræðiliðum (að undanskildum töpuðum boltum). Hér á árum áður var álíka líklegt að íslenskur leikmaður skilaði inn þrefaldri tvennu og að finna geirfuglinn á vappi einhvers staðar. Erlendu leikmennirnir sáu um það. Í dag er aðra sögu að segja.
 
Enn og aftur má deila um ágæti ákvörðunar KKÍ að takmarka fjölda erlendra leikmanna inni á vellinum hverju sinni við einn – en það er hins vegar ótvírætt og óumdeilanlegt að framfarir íslenskra leikmanna í Dominosdeild karla eru gríðarlegar. Ungir og hæfileikaríkir drengir eru að skjóta upp kollinum um allt land.
 
Merki um þetta sjást í tölfræðiliðum allra leikmanna þar sem fleiri og fleiri íslenskir leikmenn eru að leiða í ýmsum þáttum leiksins, sem var áður óþekkt fyrirbæri. Bent hefur verið á þá staðreynd að þar sem þróunin á meginlandi Evrópu er í þveröfuga átt við ákvörðun KKÍ – að fjölga erlendum leikmönnum í hverju liði – er mun erfiðara að finna sterka bandaríska leikmenn þar sem þeir fari allir þangað.
 
Hver svo sem ástæðan er þá er þróunin jákvæð fyrir íslenskan körfubolta eins og sjá má í lista yfir þá leikmenn sem hafa náð þrefaldri tvennu í vetur:
 
11/10/2013 – Emil Barja, Haukar – 11 stig, 13 fráköst og 10 stoðsendingar – Sigur
24/10/2013 – Pavel Ermolinskij, KR - 20 stig, 22 fráköst og 13 stoðsendingar – Sigur
30/10/2013 – Emil Barja, Haukar – 21 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar – Sigur
7/11/2013 – Matthías Orri Sigurðarson, ÍR – 22 stig, 13 fráköst og 12 stoðsendingar – Sigur
14/11/2013 – Ragnar Nathanaelsson, Þór Þ. – 14 stig, 10 fráköst og 10 varin skot – Tap
 
Fimm þrefaldar tvennur það sem af er vetri… og það eftir aðeins 6 umferðir! Ruslið og Karfan.is munu halda áfram að telja þrennurnar í vetur og uppfæra þennan lista.
Fréttir
- Auglýsing -