spot_img
HomeFréttirÞrefaldur meistari í Danmörku undir stjórn Pedersens og Kotila

Þrefaldur meistari í Danmörku undir stjórn Pedersens og Kotila

Tómas Atli Bjarkason varð á dögunum þrefaldur meistari í yngri flokkunum í Danmörku en Tómas er búsettur í Danmörku þar sem foreldrar hans fluttust búferlum þangað árið 1997. Í dag stundar Tómas nám við EVN skólann og leikur með liði skólans þar sem Craig Pedersen, Geoff Kotila og Arnar Guðjónsson eru við stjórnartaumana.

Lið EVN skólans er þrefaldur meistari þetta tímabilið en liðið vann Scania Cup, varð bikarmeistari í Danmörku í sínum aldursflokki og Danmerkurmeistari á dögunum. 

 

„Ég er 99 módel og bý í Nyborg en foreldrar mínir eru búsettir í Kaupmannahöfn,“ sagði Tómas við Karfan.is en Bjarki faðir hans vinnur við kennslu og rannsóknir í sjúkraþjálfaranámi í Kaupmannahöfn en Hildur móðir hans er markaðsstjóri hjá AB Nordic. Tómas á tvö yngri systkini en þau eru Benjamín Þór 12 ára og Ísabella Ósk 10 ára. 

 

Tómas á þegar að baki landsleiki fyrir dönsku yngri landsliðin á NM og í B-deild Evrópumótsins síðasta sumar, aðspurður um hvort það væri ekki skrýtið að leika gegn Íslandi sagði hann: „Jú smá en það er líka skemmtilegt en ég spái ekkert of mikið í það,“ sagði Tómas sem stefnir að háskólanámi í Bandaríkjunum í framtíðinni. 

(Kotila og Pedersen með skólalið EVN)

 

Tómas fær leiðsögn frá Craig Pedersen landsliðsþjálfara Íslands í EVN-skólanum en þar er líka Geoff Kotila fyrrum þjálfari Snæfells og svo Arnar Guðjónsson aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins. „Ég er mjög ánægður með þjálfarana,“ sagði Tómas en gerðist svo diplómatískur þegar við spurðum hann á léttu nótunum hver þeirra þriggja væri besti þjálfarinn. 

 

„Ég veit það ekki, Kotila kemur með góð „input“ og Craig er með „game-planið“ en í leikjunum er það Kotila sem kemur með orkuna svo þetta er mjög svipað og gott hjá þeim báðum,“ sagði Tómas sem verður hjá Svendborg og Arnari Guðjóns á næstu leiktíð. 

 

„Litið lengra til framtíðar langar mig að spila í Evrópu og hafa atvinnu af því að spila körfubolta,“ sagði Tómas sem síðasta sumar lék með U16 ára liði Danmerkur en hann er 17 ára og verður aðallega í æfingaverkefnum með danska U17 ára landsliðinu í sumar sem fela m.a. í æfingaleiki við Svíþjóð o.fl.

Fréttir
- Auglýsing -