spot_img
HomeFréttirÞórsstúlkur komnar í 2. sætið

Þórsstúlkur komnar í 2. sætið

Þórsarar unnu öruggan 63-39 sigur á Skallagrími í dag er liðin áttust við í Síðuskóla í dag. Gestirnir sem komu fullir sjálfstraust til leiks og byrjuðu leikinn vel og leiddu eftir fyrsta fjórðung. Smá saman náðu heimamenn tökum á leiknum og með öflugri vörn náðu Þórsarar að byggja upp gott forskot. Borgnesingar fundu fáar glufur á vörn heimamanna og því lönduðu Þórsarar öruggum 24 stiga sigri, 63-39.
Leikurinn byrjaði fjörlega, þar sem bæði lið skiptust á að skora. Rut Konráðsdóttir byrjaði að miklum krafti og skoraði m.a. sjö fyrstu stig heimamanna. Er leið á fyrsta fjórðung náðu gestirnir þó yfirhöndinni og heimamenn áttu í erfiðleikum í sóknarleiknum sem og að hirða varnarfráköst. Gestirnir skoruðu síðustu fjögur stig fjórðungsins og leiddu því með sex stigum, 14-20 er fyrsta fjórðungi lauk. Heimamenn byrjuðu annan leikhluta af miklum krafti, fóru að spila pressuvörn sem skilaði sér í 10-0 spretti og skyndilega leiddu Þórsarar leikinn með fjórum stigum, 24-20. Gestirnir áttu sem fyrr í vandræðum með pressuvörn heimamanna en það sem hélt þeim inn í leiknum var að þær virtust geta tekið sóknarfráköst að vild. Þórsarar héldu fjögurra stiga forskoti út fyrri hálfleikinn og leiddu því 29-25 er fyrri hálfleiknum lauk.
 
Þórsarar byrjuðu síðari hálfleikinn vel og náðu strax 6-0 spretti, voru skyndilega komnar með 10 stiga forskot, 35-25. Þjálfari gestanna ákvað að stöðva þennan sprett heimamanna með því að taka leikhlé er 7:40 voru eftir. Gestirnir náðu að endurskipuleggja sig í leikhléinu og komu brjálaðar til leiks á ný. Með mikilli baráttu náðu gestirnir að saxa á forskot heimamanna niður í fjögur stig, 38-34 og þannig var staðan er leikhlutanum lauk. Þórsarar komu virkilega grimmar til leiks og ætluðu sér greinilega að klára leikinn sem fyrst. Með grimmri vörn og góðri hittni náðu heimamenn góðum 11-2 spretti í byrjun fjórðungsins og staðan skyndilega orðin, 49-36. Þessi sprettur hjá Þórsurum virtist draga allan mátt úr gestunum. Smá saman byggðu heimamenn upp gott forskot. Gestirnir áttu enginn svör við sterkri vörn heimamanna, en hvað eftir annað misstu gestirnir boltann eða tóku skot of fljótt. Þórsarar slökuðu ekkert á, pressuðu gestina af fullum krafti og settu nokkra þrista niður. Áður en leiknum lauk, náðu Þórsarar 24 stiga forskoti og fór svo að lokum að þær lönduðu 24 stiga sigri, 63-39.

Sölmundur Kári Pálsson

Mynd: Rúnar Haukur Ingimarsson

 
 
Fréttir
- Auglýsing -