Tuttugustu umferð Subway deildar karla lauk í kvöld með ótrúlegum leik í Þorlákshöfn. Þar tóku heimamenn á móti Tindastól í háspennuleik.
Mikill varnarleikur var spilaður í fyrri hálfleik, liðin voru jöfn á nánast öllum stigum og skiptust á að hafa forystuna. Þórsarar náðu góðu áhlaupi í lok annars leikhluta sem kom liðinu mest 10 stigum yfir. Tindastóll svaraði rétt fyrir hálfleikinn og minkaði muninn lítillega. Staðan í hálfleik 36-31 fyrir heimamönnum.
Tindastóll var með yfirhöndina í þriðja leikhluta en Þórsarar voru aldrei langt frá. Lokafjórðungurinn var æsilegur og var jafnt á bókstaflega öllum tölum. Styrmir Snær jafnaði leikinn 83-83 þegar hálf mínúta var eftir og Tindastóll átti boltann. Sókn gestanna endaði í höndunum á Pétri Rúnari sem hitti ekki. Framlenging því staðreynd. Malik Shahid lauk þessum leik með því að setja síðustu fjögur víti leiksins á meðan Tindastóll náði ekki að hitta skotum til að tryggja sigur eða aðra framlengingu. Lokastaðan 93-90 sigur Þórsara.
Vincent Shahid var öflugur í liði Þórs með 23 stig og 9 stoðsendingar. Þá var Styrmir Snær með 20 stig og 8 fráköst.
Í liði Tindastóls var Anthony Woods algjörlega frábær með 34 stig, á sama tíma var Sigtryggur Arnar með 21 stig.
Þórsarar eru aftur á sigurbraut eftir tap í síðustu umferð og tóku stórt skref í átt að úrslitakeppnissæti með sigri í kvöld. Tindastóll er í fimmta sæti og þarf mikið að gerast til að það breytist. Leikur kvöldsins bar þess merki að stutt er í úrslitakeppni og liðin að undirbúa sig fyrir það.