Það er má með sanni segja og óhætt er að fullyrða að áhorfendur á leik Þórs og Breiðablik 1. deild karla i körfubolta hafi fengið mikið fyrir peninginn í gærkvöld. Leikurinn bauð upp á allt sem áhorfendur vilja sjá. Hraða, mikla baráttu, spennu og drama.
Þór hóf leikinn af miklum krafti og lék á alls oddi i fyrsta leikhluta. Frábær barátta og góður varnarleikur einkenndi leik liðsins enda fór svo að liðið leiddi með 8 stigum 26-18 þegar annar leikhlutinn hófst.
En hafi einhver haldið að Blikar hafi verið hættir var það öðru nær. Þeir mættu tvíelfdir til leiks i öðrum leikhluta og með mikilli baráttu komu þeir sér inn i leikinn á ný. Þeir jöfnuðu leikinn og náðu forystunni og héldu henni út leikhlutann og höfðu fjögurra stiga forystu i hálfleik 40-44.
Þriðji leikhlutinn var jafn og spennandi allt frá fyrstu mínútu og spennan náði hámarki i lok leikhlutans þegar allt ætlaði af göflunum að ganga. Þegar sex sekúndur voru eftir af leikhlutanum og staðan 66-65 fyrir Þór þegar liðið lagði upp i sókn. Ólafur Aron brunaði upp að körfu Breiðabliks en skot hans geigaði, Blikar ná frákastinu og aðeins um ein sekúnda eftir. Rúnar Pálmarsson með boltann inni i eigin vítateig fer upp i skot um það bil sem flautan glymur og viti menn boltinn steinlá í körfunni. Blikar fögnuðu en áhorfendur og leikmenn Þórs mótmæltu kröftulega enda töldu flestir að bjallan hafi flautað áður en skotið reið af. Nú kom sér að vera með upptökugræjur og útsendingu og auðvelt að skoða þetta aftur og aftur. Þegar dómarar höfðu skoðað upptökuna með tæknimanni úrskurðuðu þeir að stigi skildu ekki standa. Þórsarar leiddu þvi með einu stigi þegar fjórði leikhlutinn hófst 66-65.
Sama barátta hjá báðum liðum hélt áfram i fjórða leikhluta og liðin skiptust á að leiða en munurinn var aldrei meiri en 4 stig á vixl. Þegar um tólf sekúndur lifðu af leiknum og staðan 78-79 Blikum í vil lögðu Þórsarar upp í sókn sem endaði með þvi að Halldór Örn setti niður þriggja stiga körfu 81-79 þegar fjórar sekundur lifðu leiks. Blikar taka innkast undir eigin körfu koma boltanum á Þorsteinn Gunnlaugsson sem brunar upp völlinn og jafnar leikinn með alvöru flautukörfu og kemur leiknum í framlengingu, 81-81.
Áfram var jafnræði með liðunum í framlengingunni en gestirnir samt oftar yfir en höfðu þó aldrei meir en þriggja stiga forystu. Þegar um 15 sekúndur lifðu af framlengingunni, Breiðablik með tveggja stiga forystu 90-92 og Þór með boltann. Ólafur Aron keyrði upp að körfu Blika og jafnaði í 92-92 þegar sex sekúndur voru eftir. Blikar taka leikhlé og leggja svo upp í sókn en fá dæmd á sig skref. Þór tekur leikhlé. 3,4 sekúndur eftir þegar Þór leggur upp i sókn sem endar með skoti frá Ólafi en geigar. Önnur framlenging staðreynd.
Síðari framlengingin var jöfn og spennandi allan timann og munurinn á liðunum aldrei meir en þrjú stig. 30 sekúndur eftir og staðan jöfn 102-102 og Þór leggur upp i sókn sem endar með góðri körfu frá Ólafi þegar um 18 sekúndur voru eftir. Blikar taka leikhlé. En þær 18 sekúndur sem eftir lifðu dugðu ekki Blikum þvi Þórsarar spiluðu grimma vörn og timinn rann út og tveggja stiga sigur Þórs 104-102 staðreynd.
Sigur Þórs í kvöld var klárlega liðsheildarinnar en þeir félagar Halldór Örn og Ólafur Aron áttu báðir frábæran leik.
Stigahæstir hjá Þór voru: Halldór Örn Halldórsson með 32 stig, Darko Milosevic með 26 og Ólafur Aron með 19.
Hjá Breiðabliki var Christofer Matthews var lang öflugastur en auk þess sem hann skoraði 39 stig setti hann niður m.a. 8 þrista. Atli Örn 17 og Þorsteinn Gunnlaugs 14.
Leikurinn í kvöld var hin besta skemmtun og ljóst að þótt Þór hafi haft sigur þegar upp var staðið verður að segjast eins og er að sigurinn gat lent hvoru megin sem var. Heppnin var með Þór og stigin tvö þeirra.
Mynd með frétt/ Halldór Örn Halldórsson mundar hér byssuna gegn Breiðablik í gær.
Umfjöllun/ Páll Jóhannesson