Þór lagði ÍR í kvöld heima í Þorlákshöfn í Dominos deild karla, 105-58. Bæði lið með þrjá sigra og tvö töp úr fyrstu fimm umferðunum.
Gangur leiks
Leikurinn var nokkuð jafn í upphafi. Heimamenn í Þór þó skrefinu á undan eftir fyrsta leikhluta, 32-27. Undir lok fyrri hálfleiksins byggja Þórsarar svo upp góða forystu, eru 20 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 57-37.
Í upphafi seinni hálfleiksins gera heimamenn svo út um leikinn. Bæta enn við forskot sitt í þriðja leikhlutanum og eru 35 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann. Eftirleikurinn því nokkuð einfaldur fyrir heimamenn, sem unnu að lokum með 47 stigum, 105-58.
Sögulegt
Sigur Þórsara er sá stærsti sem liðið hefur unnið á ÍR á heimavelli í sögunni, 47 stig.
Tölfræðin lýgur ekki
Heimamenn slátruðu frákastabaráttu kvöldsins, tóku 57 á móti aðeins 39 hjá ÍR.
Atkvæðamestir
Adomas Drungilas var bestur í jöfnu liði Þórs í kvöld. Skilaði 17 stigum og 11 fráköstum á tæpum 20 mínútum spiluðum. Hjá gestunum var það Collin Pryor sem dróg vagninn með 18 stigum og 4 fráköstum.
Hvað svo?
Þór heimsækja KR í DHL Höllina 28. janúar á meðan að ÍR tekur á móti Haukum degi seinna.