spot_img
HomeFréttirÞórsarar sýndu flotta liðsheild

Þórsarar sýndu flotta liðsheild

Þór Þorlákshöfn sótti í kvöld flottan sigur í Ljónagryfjuna í Njarðvík. Lokatölur 75-90 fyrir Þór Þ. sem sýndu mikinn karakter og komu til baka eftir að hafa lent 15 stigum undir í fyrri hálfleik.

Einar Árni þjálfari Þórs var mættur á sinn gamla heimavöll að reyna að freista þess að vinna fyrrum lærisveina sína í Njarðvík og um leið að snúa við gengi síns liðs eftir tvö töp í röð í deildinni. Njarðvíkingar töpuðu í síðustu umferð og vildu eflaust bæta við fínan árangur á heimavelli.

1.leikhluti var frekar jafn og liðin skiptust á að hafa forystuna. Njarðvík byrjaði leikinn á að spila fína vörn og sóknarlega var boltinn að fljóta vel. M. Simmons átti bestu tilþrif heimamanna þegar hann tróð eftir að Raggi Nat. tapaði boltanum illa á miðjum vellinum. Raggi lét hinsvegar þennan tapaða bolta ekki trufla sig þegar hann blokkaði Ólaf Helga í liði Njarðvíkur illa stuttu seinna. 23-18 var staðan að leikhlutanum loknum.

2.leikhluti var varla byrjaður þegar Raggi Nat. fékk sína  3 villu og í kjölfarið virtust heimamenn ganga á lagið og setti Maciej Baginski niður tvær 3. stiga körfur  með stuttu millibili og kom Njarðvík í 29-18. Á þessum tímapunkti virtist ekkert vera að detta hjá gestunum úr Þorlákshöfn og Einar þjálfari þeirra tók tvö leikhlé með stuttu millibili eftir að Ólafur Helgi hafði komið Njarðvík í 31-18 um miðbik leikhlutans. Eitthvað virtust Njarðvíkingar halda að leikurinn væri þeirra því að þeir fóru að slaka full mikið á varnarlega. Gestirnir gengu þá á lagið og fóru að setja niður skotin sem höfðu ekki verið að detta í upphafi leiks. Fór þar fremstur í flokki Ragnar Örn sem setti niður tvær 3. stiga körfur með stuttu millibili. Þórsarar komust meira inn í leikinn þegar leið á leikhlutann og hefðu eflaust komist nálægt því að jafna leikinn ef Hjörtur Hrafn hefði ekki komið inn af bekknum hjá Njarðvík og sett 8 stig í röð fyrir sitt lið undir lok leikhlutans. Staðan að honum loknum var 47-40 fyrir heimamenn.

Atkvæðamestir fyrir heimamenn í hálfleik voru Maciej 10 stig/7 fráköst, Hjörtur Hrafn 8 stig (4:42 mín spilaðar) og Haukur Helgi 7 stig/3 fráköst .

Hjá gestunum í Þór var Ragnar Örn með 13 stig, Emil K. 9 stig/7 fráköst.

3.leikhluti byrjaði líkt og annar á því að Raggi Nat fékk villu og það númer 4 í leiknum.  Fljótlega náðu Þórsarar að jafna leikinn en skotin þeirra fóru að detta og að sama skapi var varnaleikur heimamann ekki upp á marga fiska. Sóknarleikur heimamanna var einnig úr takti og hreyfanleikinn lítill sem enginn. Svo fór að Þórsarar átu upp forskot Njarðvíkinga og komust yfir 61-69 en Þór vann leikhlutann 29-14.

4.leikhluti byrjaði á því að Logi setti góða 3. stiga körfu fyrir Njarðvík og reyndi að kveikja í sínum mönnum. Njarðvík fór að sinna varnarvinnunni betur og minnkuðu muninn jafnt og þétt þangað til aðeins 1.stig skildi liðin að 73-74. Þegar um 4 mínútur voru eftir að leiknum fer Haukur Helgi meiddur af velli og við það virtist trú heimamanna dvína töluvert. Í stöðunni 73-76 Þórsurum í vil setti Baldur Þór góða 3.stiga körfu og kom gestunum í 6 stiga mun 73-79. Þegar 1:54 voru á klukkunni dæmir Leifur Garðarsson brot á Loga Gunnars hjá Njarðvík áður en bolta var hent í leik eftir leikhlé. Við þetta fór Vance Hall á línuna fyrir Þórsara og setti hann bæði skotin. Þórsarar fengu boltan og setti Emil Karel risa 3.stiga körfu sem kom Þórsurum í 75-84 og 1:36 mín á klukkunni. Þetta kláraði í raun leikinn því Njarðvík kom ekki til baka og svo fór að Þórsarar lönduðu 15 stiga sigri 75-90.

Atkvæðamestir í liði heimamanna voru Logi Gunnars 14 stig/4 fráköst, Maciej Baginski 14 stig/8 fráköst, Hjörtur Hrafn 12 stig og Marquise Simmons 12 stig/5 fráköst.

Hjá Þórsurum var stigaskorið vel dreift á þá sem byrjuðu leikinn en allir enduðu þeir með yfir 10 stig. Emil Karel 19 stig/10 fráköst, Ragnar Örn 18 stig/9 fráköst, Vane Hall 15 stig/10 fráköst, Baldur Þór og Raggi Nat með 13 stig hvor.

Umfjöllun/ ÁÞÁ
Mynd/ SBS

Fréttir
- Auglýsing -