Um 400 hundruð áhorfendur urðu vitni af stórskemmtilegum körfuboltaleik í kvöld þegar Þór var hársbreidd frá því að slá Íslandsmeistara KR út úr bikarnum.
Lokamínúturnar voru hreint út sagt rafmagnaðar og æsispennandi og eins og einn áhorfandi sagði í leikslok ,,Svona spenna er ekki fyrir viðkvæma“. En lukkan var með meisturunum sem fögnuðu þriggja stiga sigri 84-87.
Þórsarar byrjuðu leikinn með látum og skoruðu fyrstu átta stig leiksins og þegar um tvær mínútur lifðu af fyrsta leikhluta hafði Þór tólf stiga forskot 27-15. Þór vann fyrsta leikhlutann 31-21.
Þór hafði betur framan af öðrum leikhluta en þá kom slakur kafli sem meistararnir nýttu sér og þegar um ein mínúta var eftir af fyrri hálfleik komust þeir yfir í fyrsta sinn 43-44. Staðan í hálfleik var 46-48.
Fyrstu tvær mínúturnar í seinni hálfleik var jafnræði með liðunum en þá hljóp allt í baklás hjá Þór og ekkert gekk upp. Meistararnir gengu á lagið og höfðu náð 20 stiga forskoti 56-76 þegar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum. Staðan í lok þriðja leikhluta 59-77.
Benedikt Guðmundsson talaði hressilega yfir sínum mönnum í leikhléinu og spurði menn hvort þeir ætluðu að bjóða mönnum uppá aðra eins spilamennsku og í þriðja leikhluta. Þeir skulduðu sjálfum sér og öðrum að spila eins og þeir gera best. Þetta hafði svo sannarlega áhrif því Þór hóf að saxa á forskot gestanna og þegar um ein mínúta lifði leiks munaði aðeins einu stígi á liðunum 84-85 og allt gat gerst. En hlutirnir féllu með KR ingum sem einhverjir myndu kalla ,,meistaraheppni“. KR fagnaði þriggja stiga sigri 84-87.
Þórsliðið sýndi og sannaði í kvöld hvað í liðinu býr. Spili liðið svona áfram verða þeir illviðráðanlegir. Þeir sýndu magnaðan karakter þegar liðið var komið 20 stigum undir og að ná að vinna upp þann mun gegn jafn sterku liði og KR var magnað.
Í kvöld var Andrew Lehman stigahæstur Þórs með 22 stig en segja má að Tryggi Snær hafi verið alveg stórkostlegur í kvöld. Strákurinn skoraði 20 stig og tók 14 fráköst. Ragnar Helgi var með 13 stig, Þröstur Leó 12, Danero Thomas 11, Sindri Davíðsson 4 og Elías Kristjánsson 2.
Hjá KR var Darri Hilmarsson stigahæstur með 18 stig, Ægir Þór Steinarsson 16, Michael Craion og Björn Kristjánsson 12 stig hvor, Snorri Hrafnkelsson 10, Brynjar Þór Björnsson 9, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 8 og Arnór Hermannsson 2.
Eins og fram kemur í upphafi pistilsins þá voru áhorfendur nærri 400 og stemmningin var hreint út sagt frábær. Þetta er vonandi það sem koma skal í vetur.
Myndasafn úr leiknum (Páll Jóhannesson)