spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÞórsarar ráku nagla í líkkistu KR

Þórsarar ráku nagla í líkkistu KR

Þór lagði KR í kvöld í 15. umferð Subway deildar karla, 83-105. Eftir leikinn er Þór í 9. sæti deildarinnar með 10 stig á meðan að KR er í 12. sætinu með 4 stig.

Fyrir leik

Bæði lið hafa verið alveg agaleg það sem af er vetri. Þór unnið fjóra og tapað tíu á meðan hefur KR aðeins unnið tvo leiki, þar sem annar þeirra var gegn Þór í Þorlákshöfn, 118-121. Í þeim leik átti Dagur Kár Jónsson stórleik fyrir KR með 35 stigum, en fyrir Þór var Pablo Hernandez Montenegro bestur með 29 stig og 9 fráköst.

Gangur leiks

Leikurinn fer gífurlega hratt af stað. Báðum liðum gengur vel að koma boltanum í körfuna í fyrsta leikhlutanum. Ekki það að varnirnar hafi verið neitt sérstaklega slakar, þar sem að leikmenn beggja liða voru að setja virkilega erfið skot. Gestirnir úr Þorlákshöfn ná þó að vera skrefinu á undan þegar hlutinn er á enda, 26-33. Þórsarar ná enn að bæta við forystu sína í öðrum leikhlutanum, þar sem mest þeir komast 15 stigum yfir. Munurinn er þó aðeins 11 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 50-61.

Stigahæstur fyrir Þór í fyrri hálfleiknum var Styrmir Snær Þrastarson með 15 stig á meðan að fyrir KR var Antonio Williams kominn með 14 stig.

Þórsarar hefja seinni hálfleikinn svo af miklum krafti. Ná að halda vel varnarlega og eins og sagt er keyra nokkuð hratt í bakið á heimamönnum. Uppskera mikið af auðveldum körfum í þriðja leikhlutanum þar sem KR virtist vanta bæði vilja og orku til þess að spila vörn. Gestirnir gefa þó aðeins eftir í lok þriðja leikhlutans og er munurinn bara 16 stig fyrir lokaleikhlutann, 69-85. KR náði engu áhlaupi í fjórða leikhlutanum og voru aldrei nálægt því að koma sér inn í leikinn. Að lokum vinnur Þór leikinn með sinni mestu forystu í leiknum, 22 stigum, 83-105.

Atkvæðamestir

Vinnie Shadid var bestur í liði Þórs í kvöld með 26 stig, 9 fráköst og 11 stoðsendingar. Honum næstur var fyrrum leikmaður KR Jordan Semple með 21 stig, 7 fráköst, 8 stoðsendingar og 4 varin skot.

Í liði KR var leitun að ljósum punktum í frammistöðum leikmanna, en Veigar Áki Hlynsson var kannski líflegastur allan leikinn fyrir þá, með 19 stig og 5 fráköst.

Hvað svo?

KR á leik næst komandi fimmtudag 9. febrúar gegn Hetti á Egilsstöðum, en degi seinna tekur Þór á móti Íslandsmeisturum Vals í Þorlákshöfn.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -