Þórsarar léku á alls oddi þegar liðið tók á móti Njarðvíkingum þegar liðin mættust í íþróttahöllinni á Akureyri í 9. umferð Bónus deildar kvenna í körfuknattleik. Leiknum lauk með tuttugu og eins stigs sigri 106:85. Segja má að heimakonur hafi lagt línurnar strax í upphafi leiks og náðu afgerandi forskoti í fyrsta leikhluta og hafði þegar best lét 15 stiga forskot 29:15 þegar ein og hálf mínúta lifði fyrsta leikhluta. Þór vann leikhlutann með 11 stigum 33:22. Fremst í liði Þórs í fyrsta leikhluta var Esther Fokke en hún setti niður þrjá þrista og komin með 13 stig. Hjá gestunum voru þær Brittany og Bo með 7 stig hvor.
Annar leikhlutinn var eign heimakvenna sem þjörmuðu að gestunum og náðu um tíma 19 stiga forskoti 60:41. Hittni Þórsara var góð og liðið lék afbragðs vel meðan gestirnir voru half ráðvilltir og gerðu fjölmörg mistök, sem gerði það að verkum að hvorki rak né gekk hjá þeim. Í öðum leikhlutanum fór Amandine á kostum og var komin með 19 stig í hálfleik. Sömu sögu er að segja af Brittany sem var stórkostleg og var komin með 20 stig í hálfleik. Þór vann leikhlutann með fimm stigum 29:24 svo munurinn í hálfleik var 16 stig 62:46.
Í raun má segja að eins og leikurinn þróaðist í fyrri hálfleik var fátt sem benti til að gestirnir ættu eftir að hleypa fjöri í leikinn. Í hálfleik var Amandine komin með 20 stig Esther 16 Maddie 8 auk þess sem hún var komin með 12 fráköst og 10 stoðsendingar.
Hjá gestunum var Brittany með 20 stig eins og áður segir og Bo með 9 stig og Ena 6.
Í þriðja leikhluta héldu Þórsarar áfram að þjarma að gestunum og bættu í forskotið sem um tíma var mest 21 stig. Þarna voru þær Amandine, Esther, Maddie frábærar og svo kom hin unga Emma Karólína sterk inn og lét til sín taka í vörn og sókn og þá var Brittany alveg óstöðvandi hjá gestunum og var komin með 31 stig og hjá Þór var Amandine komin með 32 stig þegar lokaspretturinn hófst. Staðan 87:67.
í loka leikhlutanum létu liðin lítið fara fyrir sér ef frá er skilið leikur þeirra Amandine og Brittany sem fóru á kostum og luku leik með 41 stigi hvor. En stjarna kvöldsins er án efa Maddie Sutton sem fór hamförum í leiknum en hún tók 12 sóknarfráköst 12 varnarfráköst og 17 stoðsendingar. Þór vann leikhlutann með einu stigi 19:18 og 106:85 afar sanngjarn sigur Þórs staðreynd. Eftir sigurinn í kvöld er Þór með 10 stig í 3.-5. Sæti deildarinnar likt og Keflavík og Tindastóll.
Framlag leikmanna Þórs: Amandine Toi 41 stig, Esther Fokke 20/5/3, Maddie 18/24/17, Emma Karólína 11/7/2, Natalia Lalic 8/4/2, Eva Wium 6/5/5, Katrín Eva 2/1/0.
Framlag leikmanna Njarðvíkur: Brittany Dinkins 41/5/4, Bo Guttormsdóttir 13/6/1, Hulda María 7/0/2, Lára Ösp 7/3/0, Ena Viso 6/6/6, Kristín Björk 5/2/2, Krista Gló 2/1/1, Sara Björk 2/1/1 og Anna Lilja 0/1/0.
Umfjöllun og myndir / Palli Jóh