spot_img
HomeFréttirÞórólfur Stjörnubani með sigurkörfu í Smáranum

Þórólfur Stjörnubani með sigurkörfu í Smáranum

21:50 

{mosimage}

 

 

(Blikar fögnuðu sigrinum innilega og enginn þó meir en Þórólfur) 

 

Breiðablik lagði Stjörnuna 77-76 í Smáranum í 1. deild karla í kvöld eftir ótrúlega spennandi og skemmtilegan leik. Þórólfur H. Þorsteinsson reyndist hetja Blika þegar hann gerði 5 síðustu stig liðsins og sigurkörfu leiksins þegar þrjár sekúndur voru til leiksloka. Stjarnan var í kvöld á höttunum eftir sínum fyrsta sigri í deildinni og hann var aðeins í seilingarfjarlægð en Þórólfur slökkti vonir Garðbæinga við mikinn fögnuð sinna manna. Derrick Stevens lék ekki með Stjörnunni en hann hefur verið látinn fara frá félaginu og var ekki að sjá á leik liðsins að hans væri saknað, gestirnir börðust af miklum krafti en sigurinn féll í skaut Blika sem hafa nú unnið þrjá leiki og tapað tveimur.

 

Blikar höfðu frumkvæðið framan af en Stjarnan var aldrei langt undan. Að loknum fyrsta leikhluta höfðu Blikar eins stigs forskot 13-12. Heimamenn juku svo muninn fyrir leikhlé þar sem Þorsteinn Gunnlaugsson var gríðarlega sterkur og fór fyrir Blikum. Staðan í hálfleik var 34-24 fyrir Blika en Kjartan Kjartansson minnkaði muninn í 10 stig fyrir Stjörnuna er hann gerði síðustu körfu hálfleiksins.

 

{mosimage}

 

Allt útlit var fyrir að Breiðablik myndi sigla örugglega fram úr Stjörnunni í þriðja leikhluta og náðu þeir um 15 stiga forskoti á gesti sína á kafla. Garðbæingar neituðu að játa sig sigraða og minnkuðu muninn í 7 stig eftir góðan lokasprett í leikhlutanum.

 

Fjórði og síðasti leikhlutinn var æsispennandi en Stjarnan gerði 14 fyrstu stig leikhlutans og komust í 56-60 og yfir í leiknum í fyrsta sinn síðan í fyrsta leikhluta. Sigurjón Lárusson fór fyrir Stjörnumönnum mest allan leikinn en hann gerði 20 stig í kvöld, tók 7 fráköst og fiskaði 13 villur á Blikana. Heimamenn náðu þó að jafna sig á frábærri byrjun Stjörnunnar og síðustu 5 mínútur leiksins skiptust liðin á því að hafa forskotið.

 

{mosimage}

 

Þegar 56 sekúndur voru til leiksloka var staðan 68-73 fyrir Stjörnuna og Blikar halda í sókn og minnka muninn í 70-73 og skora að auki úr einu vítaskoti í næstu sókn og staðan því 70-74. Leifur Árnason minnkaði muninn í 72-74, Stjarnan bætir við 72-76. Í þessari stöðu var komið að framlagi Þórólfs Þorsteinssonar sem minnkaði muninn í 75-76 með þriggja stiga körfu þegar 13 sekúndur voru til leiksloka. Stjarnan tekur innkast og um leið brjóta Blikar á Eyjólfi Jónssyni sem misnotar bæði vítaskot sín. Í næstu sókn berst boltinn aftur til Þórólfs sem brýst inn í teig og skotið ríður af og boltinn hafnar í netinu og staðan 77-76 þegar Stjarnan kastar boltanum fram og reynir erfitt þriggja stiga skot sem geigar.

 

Blikar fögnuðu vel og lengi þegar flautan gall en vonbrigði Stjörnumanna leyndu sér ekki í leikslok og fóru þeir vægast sagt illa að ráði sínu á lokasekúndum leiksins.

 

Stigahæstur Blika var Þorsteinn Gunnlaugsson með 23 stig og 20 fráköst en Leifur Árnason gerði 20 stig og Þórólfur ,,Stjörnubani” gerði 9 stig í leiknum. Hjá Stjörnunni var Sigurjón Lárusson að vanda atkvæðamikill með 20 stig og 7 fráköst en Sverrir Karlsson gerði 16 stig í leiknum.

 

[email protected]

 

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -