spot_img
HomeFréttirÞorleifur: Lékum góða vörn í restina

Þorleifur: Lékum góða vörn í restina

,,Þetta var ströggl og lélegt hjá okkur og sem betur fer náðum við að klára þetta en við hikstuðum rosalega mikið á móti svæðisvörn Keflavíkur,“ sagði Þorleifur Ólafsson Lengjubikarmeistari og leikmaður Grindavíkur. Sigur Þorleifs og félaga mátti vart tæpara standa, 75-74, þar sem lokaskot frá Charles Parker leikmanni Keflavíkur dansaði af körfunni.
 
 
,,Það munar um leikmann eins og Pál Axel, sérstaklega á móti svæðisvörn og við fundum vel fyrir fjarveru hans núna,“ sagði Þorleifur og er þá kannski ekki hægt að ætlast til þess að menn leiki eins og englar tvo toppleiki á innan við sólarhring?
 
,,Nei kannski ekki, við hefðum nú samt átt að spila betur í dag en við gerðum því þetta var hálf lélegt. Við réðumst ekki á vörnina þeirra og vorum bara ekki að hitta á löngum köflum,“ sagði Þorleifur en eru það ekki góðu liðin sem einmitt klára svona leiki?
 
,,Kannski er þetta fyrsta skrefið í átt að því að verða gott lið. Við kannski byrjuðum á léttu ,,prógrammi“ í deildinni og vorum í léttum riðli í Lengjubikar en vorum samt að klára leiki sem við vorum að spila illa. Upp á síðkastið höfðum við verið að klára leikina betur svo þessir síðustu tveir leikir gegn Þór Þorlákshöfn og Keflavík voru kannski smá skref niður á við hjá okkur. Ég er svekktur yfir því að klára þetta ekki betur,“ sagði Þorleifur en við vippuðum okkur yfir á léttari nótur, titill kominn í hús!
 
,,Gaman að vinna þetta svona, með einu stigi, við komumst einu sinni yfir og náðum þar að stoppa Keflvík á lokamínútunum. Við lékum góða vörn í restina þó sóknin hafi ekki verið að skila sér en vörnin landaði titlinum,“ sagði Þorleifur sem hefur, með tilliti til meiðsla, átt erfitt uppdráttar síðustu misseri.
 
,,Ég er fínn núna, upp á síðkastið hef ég verið góður svo við sjáum bara til hvernig það verður.“
 
Fréttir
- Auglýsing -