Landsliðsmaðurinn og leikmaður KR Þórir Guðmundur Þorbjarnarson hefur samið við Landstede Hammers samkvæmt tilkynningu KR. Mun hann því halda út og leika með þeim í hollensku deildinni út þetta tímabil. Þórir kom til KR við enda síðasta tímabils og hefur það sem af er þessu verið einn besti leikmaður Subway deildarinnar.
Tilkynning:
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, betur þekktur sem Tóti Turbo, hefur samið við hollenska félagið Landstede Hammers og mun hann leika með félaginu á þessu tímabili. Þórir er líkt og kunnugt er uppalinn KR-ingur sem sneri heim úr háskóla undir lok síðasta tímabils og hefur leikið virkilega vel með KR á þessari leiktíð. Aðspurður segir Þórir að spennandi tímar séu framundan, þrátt fyrir að alltaf sé erfitt að yfirgefa KR. „Ég er mjög spenntur fyrir þessu, þetta er frábært tækifæri í skemmtilegri deild. Á sama tíma er erfitt að skilja við KR á miðju tímabili og ég er þakklátur fyrir stuðninginn og skilninginn. Ég óska liðinu góðs gengis og fylgist spenntur með.“ Þess má geta að Landstede Hammers leikur í BNXT deildinni en í henni leikur einnig Antwerp Giants, félag Elvars Más Friðrikssonar.
Körfuknattleiksdeild KR vill koma á framfæri innilegum þökkum til Þóris og óskum við honum alls hins besta í Evrópu. Við hlökkum þess að fá hann aftur heim, hvenær sem sá tími kemur. Áfram KR!