Thelma Dís Ágústsdóttir (Ball State Cardinals) og Þóranna Kika Hodge Carr (Iona Gaels) hefja báðar úrslitakeppnir sinna deilda á morgun. Líkt og hjá Sigrúnu Björg Ólafsdóttur og Chattanooga Mocs eru verðlaunin ekki aðeins deildarmeistaratitill, heldur aðgangur að lokamóti háskólaboltans, Marsfárinu.

Bæði lið, Ball State og Iona, hafa átt góðu gengi að fagna á yfirstandandi tímabili og voru bæði liðin nýlega á lista 25 bestu “mid-major” skóla háskólaboltans, þar sem Ball State voru í 9. sætinu og Iona í 12. sæti. Bæði lið eiga því góða möguleika á að vinna riðlana sína, og því möguleiki á að Íslendingar muni eiga 3 fulltrúa í Marsfárinu.

Báðar leika þær nokkuð stór hlutverk með liðum sínum, en Thelma Dís er að sjálfsögðu að klára glæsilegan feril sinn hjá Ball State nú í vor, en hún fékk “honorable mention” verðlaun á dögunum frá MAC deildinni.