spot_img
HomeFréttirÞóranna fór alla leið í Marsfárið með Iona Gaels "Einstök upplifun"

Þóranna fór alla leið í Marsfárið með Iona Gaels “Einstök upplifun”

Keflvíkingurinn Þóranna Kika Hodge Carr hefur leikið með háskólaliði Iona Gaels í New York í Bandaríkjunum síðan árið 2020, en Gaels leika í MAAC deild efstu deildar háskólaboltans.

Í leik fyrir Keflavík 2018

Þóranna hafði áður en hún fór út unnið bæði Íslands og tvo bikarmeistaratitla með uppeldisfélagi sínu í Keflavík. Þrátt fyrir að vera 21. árs þegar hún hélt vestur um haf hafði hún þónokkra reynslu í efstu deild þar sem hún hóf að leika fyrir meistaraflokk Keflavíkur 16 ára gömul árið 2015, en þá var hún um leið í nokkuð stóru hlutverki þar sem hún lék rúmar 10 mínútur að meðaltali í leik. Á sínu síðasta tímabili með Keflavík, 2019-20, lék hún rúmar 27 mínútur í leik og skilaði 9 stigum, 5 fráköstum, 3 stoðsendingum og 2 stolnum boltum að meðaltali í leik. Þóranna lék á sínum tíma einnig upp öll yngri landslið Íslands og var árið 2019 komin í A landsliðið, þar sem hún hefur leikið fimm leiki.

Í leik fyrir Ísland

Iona Gaels áttu góðu gengi að fagna á þessu tímabili sem endaði hjá þeim á dögunum. Í heild unnu þær 26 leiki og töpuðu aðeins 7, en þær höfnuðu í efsta sæti MAAC deildarinnar og unnu meistaratitil deildarinnar eftir úrslitakeppni, sem tryggði þeim farmiða í Marsfárið í annað skipti í sögu skólans. Í úrslitakeppni Marsfársins töpuðu þær svo í fyrstu umferð gegn firnasterku liði Duke Blue Devils.

Þóranna hefur verið í nokkuð stóru hlutverki frá því hún fór fyrst út fyrir þremur tímabilum. Tími hennar á vellinum hefur þó þrefaldast þessi þrjú ár, þar sem fyrsta tímabilið var hún að leika rúmar 10 mínútur í leik, á síðasta ári í kringum 20 mínútur í leik og á þessu er var að klárast tæpar 30 mínútur að meðaltali í leik, en þennan síðasta vetur skilaði hún 7 stigum, 5 fráköstum, 2 stoðsendingum og 2 stolnum boltum í leik.

Karfan hafði samband við Þórönnu og spurði hana út í tímann sinn með Iona Gaels, hvernig hafi verið að fara í Marsfárið, hvernig lífið í New Rochelle sé og fleira.

Hvernig fannst þér síðasta tímabil ganga hjá ykkur í Iona Gaels?


“Tímabilið gekk ótrúlega vel. Liðið small saman snemma af og á vellinum. Við slóum nokkur NCAA met sem var geggjað. Enduðum timabilið á að vinna deildarmeistaratitilinn og síðan tournamentið sem tók okkur í March Madness.”

Hvernig gekk þér persónulega á tímabilinu, ertu sátt?


“Ég er mjög sátt með tímabilið. Mér gekk vel þar sem ég lagði mikið á mig til að fá gott hlutverk og góðar mínútur inná vellinum.”

Hvernig er stemningin í New Rochelle?

“Stemningin er góð hérna í New Rochelle. Rólegur bær, campusinn er lítill og ekki mikið að gera í kring sem er ekki mikið öðruvísi en heima í Keflavík. En síðan er alltaf hægt að taka 30 mín keyrslu til Time Square sem lætur mann átta sig á því að maður býr í New York.”

Er körfuboltinn ólíkur því sem þú hafðir vanist heima?


“Já, körfuboltin er ólíkur uppá það að það er meira í kringum allt hér. Hugsað um öll smáatriði og meiri tími sem fer í æfingar, vídjófundi og að lyfta. Einnig er skotklukkan lengri svo meira um ‘’set plays’’.”

Að hvaða leyti finnst þér þú vera þróast sem leikmaður þarna úti?


“Auka æfingarnar hafa hjálpað mikið. Einnig hef ég horft mikið meira á körfubolta síðan ég flutti út sem hefur hjálpað að skilja leikinn betur.”

Þú fylgist væntanlega vel með Subway deildinni þarna úti, hvernig líst þér á hvernig tímabilið hefur þróast, hverjir heldur þú að séu líklegastir til að verða meistarar?


“Já reyni að vera dugleg að fylgjast með deildinni heima, sérstaklega kvenna megin. Ég held auðvitað með uppeldisfélagnu. Þær eru búnar að standa sig ótrúlega vel og unnu deildarkeppnina. Ótrúlega stolt af þeim og hef fulla trú að þær verða meistarar.”

Þið farið alla leið í Marsfárið, hvernig var að taka þátt í því?


“Að taka þátt var geggjað! Góð umgjörð í kringu allt og að fá að spila á ótrúlegum velli eins og Duke er einstök upplifun og það eftirminnalegast myndi ég segja.”

Þú hefur heldur betur unnið þig inn í stórt hlutverk í liðinu, hvernig hefur það ferðalag verið, var ekkert erfitt að vera þolinmóð og treysta á að það tækist?


“Nei, ég hef alltaf talið mig vera mjög duglega og jákvæða. Liðsfélagar og þjálfararnir hjálpuðu mér að venjast öðruvísi körfubolta og finna hlutverk sem hentaði mér best.”

Verður þú áfram úti á næsta tímabili?


“Já, ég mun halda áfram að spila og vera í námi hérna úti á næsta tímabili.”

Fréttir
- Auglýsing -