spot_img
HomeFréttirÞór Þorlákshöfn kom sá og sigraði í Hólminum

Þór Þorlákshöfn kom sá og sigraði í Hólminum

Þór frá Þorlákshöfn mættu í Stykkishólm í lengjubikar karla til leiks við Snæfellinga. Staðan eftir fyrsta hluta var 14-19 en Þórsarar leiddu leikinn og komust með 10-0 kafla í 3-12 forskot sem Snæfellingar löguðu undir lok hlutans með aðeins beittari vörn en í upphafi.

 

Snæfellingar ströggluðu gegn vörn Þórs og voru oft að renna út á sóknarklukku eða þar um bil. Á meðan gekk boltinn mun betur hjá gestunum og höfðu minna fyrir sóknarleik sínum. Þeir bættu við forskotið í öðrum hluta sem fór 13-21 og staðan 27-40 í hálfleik. Ragnar Ö og Ragnar Á voru efstir á blaði í skori Þórs með 10 og 9 stig og Ragnar Á bætti við 10 fráköstum. S-in þrjú, Sigurður, Sherrod og Stefán voru efstir hjá Snæfelli.

 

Skipulagðir Þórsarar komu sér fljótt í 20 stiga mun 27-47 og léku vel. Sama var ekki hægt að segja um heimamenn sem áttu erfitt uppdráttar og voru undir 37-58 eftir þriðja hluta. Fjórða leikhluta byrjuðu gestirnir grænu 9-0 og juku forskotið enn frekar 37-67 en Snæfellingar voru með arfaslaka nýtingu 11/44 eða 25% gegn 21/36 eða 58% Þórs í tveggja stiga skotum. Þegar tvær mínútur voru eftir höfðu Þórsarar skorað 29 gegn 4 stigum Snæfells og yfirspiluðu Snæfell á flest allan máta.

 

Leikurinn endaði á öruggum sigri 47-89 fyrir Þór.

 

Símon B. Hjaltalín

 

Mynd: Ragnar Nathanaelsson átti góðan leik fyrir Þór (Skúli Sig)

Fréttir
- Auglýsing -