Gestirnir gjörsamlega keyrðu yfir Valsmenn í byrjun annars leikhluta og höfðu skorað 13 stig áður en Valsmenn náðu að svara og Ágúst Björgvinsson tók leikhlé fyrir Valsmenn. Vallarklukku og live-statti bar ekki saman um tölurnar en samkvæmt vallarklukkunni höfðu Þórsarar þá náð 6 stiga forskoti, 24-31. Það var svo August Magnus Bracey sem setti fyrstu stig Valsmann í leikhlutanum eftir rétt tæplega fjórar mínútur af leik, 27-35. Þegar leikhlutinn var hálfnaður höfðu gestirnir 10 stiga forskot, 30-40. Bæði lið spiluðu flottan varnarleik næstu mínútur og gekk því illa að koma boltanum ofaní. Þegar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum hafði Þór yfir, 36-43. Valsmenn tóku leikhlé þegar rúm mínúta var eftir af leikhlutanum, 36-43. Hvorugu liðinu tókst að skora fram að hálfleik og því munaði enn 7 stigum þegar flautað var til loka leikhlutans. Blagoj Janev og Garrison Johnson tókst þó báðum að næla sér í tæknivillu á leiðinni inní klefa í hálfleik fyrir kjaftbrúk.
Stigahæstur í hálfleik í liði Þórs var Guðmundur Jónasson með 12 stig en næstir voru Darren Govens með 11 stig og Matthew James Hairston með 9 stig og 8 fráköst.
Hjá Val var Hamid Dicko stigahæstur með 12 stig en næstir voru Garrison Johnson og Birgir Pétursson með 6 stig hvor.
Liðin skiptust á að skora á fyrstu mínútunum þriðja leikhluta en þegar fjórar mínútur voru liðnar höfðu gestirnir 6 stiga forskot, 42-48. Þórsarar hleyptu Valsmönnu þó ekki nær en það og í hvert skipti sem heimamenn virtust ætla að minnka muninn settu Þórsarar í gírinn og bættu í. Þegar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum hafði Þór 7 stiga forskot, 48-55. Þegar tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta höfðu gestirnir aftur náð 10 stiga forskoti, 50-60. Valsmenn svöruðu þó með næstu 7 stigum leiksins og munaði því aðeins 3 stigum á liðunum þegar hálf mínúta var eftir, 57-60. Þór svaraði um hæl með 5 stigum í röð og það munaði því enn 7 stigum þegar flautað var til loka leikhlutans, 57-65.
Það var alveg ljóst á leik þórsara í upphafi fjórða leikhluta að þeir ætluðu sér ekki að gefa neitt frá sér í þessum leik. Þegar tæplega þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum höfðu þeir skorað 10 stig gegn 5 stigum Valsmanna og Ágúst Björgvinsson sá sig knúinn að taka leikhlé, 62-75.
Á meðan Græni Drekinn söng afmælissönginn fyrir Darren Govens hélt hann áfram að tryggja sínu liði stigin tvö. Þegar leikhlutinn var hálfnaður höfðu gestirnir náð forskotinu upp í 18 stig, 64-82, og stefndu rakleiðis til sigurs. Valsmenn löguðu sína stöðu aðeins og höfðu náð muninum niður í 14 stig þegar tvær mínútur voru eftir, 71-85. Minni spámenn fengu að spreyta sig hjá báðum liðum þegar leið á og leikurinn breyttist því töluvert þegar leið á. Þór fór á endanum með 17 stiga sigur, 73-90.
Mynd: [email protected]
Umfjöllun: [email protected]