Þór Þ. er meistari meistaranna árið 2016 eftir góðan sigur á KR í DHL höllinni 69-74 í kvöld.
Þór leiddi leikinn nánast allan tímann en KR var alltaf skrefinu á eftir og var spennan nokkur undir lokinn. Leikurinn gefur nokkra mynd af liðunum en Dominos deildin hefst í vikunni eftir gott sumarfrí.
Þáttaskil:
Eftir að Þór hafði náð sér í góða forystu í þriðja leikhluta kom KR til baka og komst yfir um miðbik fjórða leikhluta. Þá stigu lykilmenn Þórs upp og kláruðu leikinn eftir að hafa stjórnað honum frá upphafi.
Tölfræðin lýgur ekki:
Erfitt er að taka einn þátt tölfræðinnar sérstaklega út en Þór hafði yfirhöndina í langflestum þáttunum. Munurinn er samt ekki mikill en leikurinn var heilt yfir mjög jafn. Þór spilar á fleiri leikmönnum en KR fær meira framlag af bekknum. Skotnýting leiksins í heild er slök og mikil haust lykt af tölfræðinni.
Hetjan:
Maciej Baginski er nýmættur til Þorlákshafnar frá Njarðvík og var mjög mikilvægur fyrir liðið í dag. Endaði með 22 stig og 5 fráköst. Auk þess átti hann risastórar körfur þegar KR var að ná forystunni í fjórða leikhluta. Reif sitt lið áfram og verður gaman af fylgjast með honum í þessu hlutverki í vetur.
Kjarninn:
Þór Þ. eru með fullmannað lið og hafa æft lengi saman en KR var án Jóns Arnórs og Pavel. Það skal samt ekki tekið af Þór að þeir spiluðu heilt yfir góðan bolta. Þeir halda KR í 69 stigum í DHL höllinni sem fá lið leika eftir. Þór lítur vel út fyrir tímabilið, boltinn fékk að ganga og vörnin hörkusterk. Nokkrar breytingar hafa orðið á liðinu og eiga menn aðeins eftir að læra á hvern annan. Staðreyndin er að leikurinn er sögulegur því þetta er fyrsti titill Þórs Þ í meistaraflokki.
Mynd / Bára Dröfn