11:51
{mosimage}
Þór Þorlákshöfn vann mikilvægan sigur í gærkvöldi þegar þeir lögðu Hauka að velli 68-60. Lokamínútan var gífurlega spennandi en þá virtust Þórsarar ætla að missa 9 stiga forystu niður en þeir náðu að klára leikinn. Mikilvægi sigursins er ótrívætt því ásamt því að komast upp í 10. sætið er liðið með betri árangur úr innbyrðisviðureignum sem gerir það að verkum að ef Þór og Haukar verða jafnir að stigum eru Haukar alltaf fyrir neðan.
Það voru Þórsarar sem byrjuðu betur og komust í 6-0. En gestirnir náðu aðeins að ranka við sér og góður kafli hjá þeim gaf þeim 7 stiga forystu eftir 1. leikhluta 13-20. Í 2. leikhluta jafnaðist leikurinn aðeins en spennustigið var hátt hjá báðum liðum og gerðust þau sek um mörg mistök. Í hálfleik munaði aðeins 1 stigi, 31-32.
Í seinni hálfleik náðu Haukar smá forskoti og virtust líklegir til að stinga af. Þegar 4. leikhluti hófst höfðu Haukar 7 stiga forystu, 40-47.
Í lokaleikhlutanum gekk mest allt upp hjá heimamönnum. Þeir hittu betur og stigu betur út. Þegar Þór saxaði á forskotið virtust Haukar fara á taugum og nokkrar slakar ákvarðanir gerðu það að verkum að heimamenn voru komnir með 9 stiga forystu þegar aðeins 1 mínúta var eftir.
{mosimage}
Haukar fengu vítaskot þegar 55 sekúndur voru eftir og settu þeir bæði skotin ofaní. Þór tók innkastið og Haukar stálu boltanum strax, Roni Leimu fékk boltann og skoraði og fékk víti að auki. Hér munaði aðeins 5 stigum og Leimu á línunni. Hann skoraði úr vítunu með 50 sekúndur á klukkunni. Þórsarar héldu haus út leikinn, Haukar brutu til að senda þá á línuna og þeir nýttu skotin sín. Haukar fengu síðasta tækifærið til að skora en slakt þriggja-stiga skot rataði ekki ofaní.
Þó að lítið hafi verið skorað og mörg mistök á báða bóga var leikurinn æsispennandi alveg fram á síðustu sekúndur. Með sigri steig Þór mikilvægt skref í að tryggja tilverurétt sinn í deildinni en þeir þurfa að minnsta kosti einn sigur í viðbót en ljóst er að Haukar þurfa allavega tvo sigra í viðbót og treysta á hagstæð úrslit úr öðrum leikjum.
Texti og myndir: [email protected]