spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaÞór riftir samning sínum við Sindra Davíðsson

Þór riftir samning sínum við Sindra Davíðsson

Körfuknattleiksdeild Þórs á Akureyri hefur sagt upp samningi sínum við bakvörðinn Sindra Davíðsson. Sindri, sem er alinn upp í félaginu, hefur leikið þar síðan árið 2010, að einu ári undanteknu, þegar hann fór í Snæfell árið 2015. Í 22 leikjum með félaginu á síðustu leiktíð í Dominos deildinni skilaði Sindri 7 stigum, 2 fráköstum og 2 stoðsendingum á um 22 mínútum að meðaltali í leik.

Samkvæmt samtali sem Sindri átti við Körfuna fyrr í dag sagði hann að sú ástæða sem sér hafi verið gefin fyrir uppsögninni þá að félagið stæði illa fjárhagslega. Sagði hann stjórnina ennfrekar hafa tjáð sér að enginn grundvöllur væri fyrir því að stefna beint aftur á úrvalsdeildina, sem kom honum spánskt fyrir sjónir, þar sem að bæði væri þjálfarinn á öðru máli, sem og væri liðið með tvo erlenda leikmenn á samning hjá sér.

Segir Sindri ennfrekar að hann hafi ekki verið eini leikmaðurinn á þessum fundi, heldur hafi þar verið annar leikmaður sem að stjórnin tjáði slíkt hið sama sem og að félagið gæti ekki staðið við samning hans heldur að fullu.

Þá segir Sindri að sér þyki leiðinlegt að svona sé komið fyrir uppeldisfélagi sínu og að sér þyki mjög leiðinlegt að hafa þess ekki kost að taka þátt í vetur á sínu 9. tímabili með meistaraflokki Þórs og að í óefni sé komið þegar að ekki er hægt að standa við skuldbindingar við ódýrasta leikmann félagsins. Bendir hann einnig á þá staðreynd að ekki einn leikmaður sé eftir í liðinu sem kom Þór upp í Dominos deildina árið 2016.

Sindri kveðst þó ekki hættur, þó svo að nú séu skórnir komnir tímabundið upp í hilluna.

 

 

Fréttir
- Auglýsing -