Þór tryggði sér tvö stig í DHL Höllinni í dag þegar þær sóttu KR heim í 1. deild kvenna. Fyrir leikinn voru Þórsstúlkur búnar að tryggja sér deildarmeistaratitilinn og bíður þeirra nú umspil við Breiðablik um sæti í úrvalsdeild kvenna á næsta tímabili. KR situr í 3. sæti deildarinnar og spilar lokaleik sinn í vetur á móti Fjölni í Dalhúsum á föstudaginn næstkomandi.
Eftir að KR komst yfir í stöðunum 2-0 og 4-2, þá skelltu Þórsstúlkur í lás og héldu KR stigalausum það sem eftir var af fyrsta leikhluta. Staðan að honum loknum 4-18 gestunum í vil. Þór leit ekki til baka eftir þetta og náði mest 30 stiga forystu í stöðunni 34-64 þegar um 5 mínútur voru eftir af leiknum. KR minnkaði muninn áður en yfir lauk og lokatölur í DHL Höllinni í dag 46-66.
Stigahæst í liði Þórs var Hrefna Ottósdóttir með 19 stig og 4 fráköst. Helga Rut Hallgrímsdóttir skoraði 17 stig, tók 16 fráköst og gaf 4 stoðsendingar og Heiða Hlín Björnsdóttir skoraði 13 stig og gaf 4 stoðsendingar.
Hjá KR var Rannveig Ólafsdóttir stigahæst með 9 stig og 3 stoðsendingar, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir skoraði 8 stig og tók 9 fráköst og Margrét Blöndal og Ástrós Lena Ægisdóttir bættu við 7 stigum hvor.