spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaÞór lagði Val og heldur í vonina

Þór lagði Val og heldur í vonina

Þórsstúlkur tóku á móti Val í þriðja leik liðanna í 8 liða úrslitum Bónus deildar kvenna í körfubolta í leik sem fram fór í íþróttahöllinni í kvöld. Þegar liðin mættust leiddu Valskonur viðureign liðanna 2:0 og heimakonur urðu að ná sigri til þess að þurfa ekki að fara í ótímabært sumarfrí. Heimakonur endurheimtu þær Esther Fokke, Hrefnu Ottósdóttir sem hafa verið frá vegna meiðsla og svo kom Karen Lind inn í hópinn og þetta hjálpaði svo sannarlega.

Leikurinn fór rólega af stað bæði lið þreifuðu fyrir sér og til að byrja með leiddi Þór fram í miðja leikhlutann en í stöðunni 8:7 komst Valur yfir með þriggja stiga skoti 8:10. Forskot gestanna varði ekki lengi því í stöðunni 11:13 kom Eva Wium Þór yfir á ný með þriggja stiga körfu 14:13 og leiddi liðið allt til loka leiks. Þórsarar unnu leikhlutann með 8 stigum 21:13. 

Þórsarar spiluðu góða vörn á gestina í öðrum leikhluta og hafði liðið allt að 15 stiga forskot og liðið virtist fullt sjálfstraust og ljóst að þær ætluðu sér ekki að fara strax í sumarfrí. Liðið var drifið áfram af þeim Emmu Karólínu sem fór mikinn og þá var Maddie sem þó var komin í villuvandræði og komin með 3 villur um miðjan leikhlutann.  Þór vann leikhlutann 18:12 og leiddi í hálfleik með 14 stigum 39:25.

Í liði Þórs var Emma Karólína komin með 14 stig í hálfleik og Maddie 9 og Eva Wium 5. En Amandine var komin með 4 stig og Esther 3. Hjá Val var Dagbjört Dögg komin með 13 stig og Ásta Júlía 7. 

Þórsarar byrjuðu þriðja leikhlutann með því að Eva Wium setti niður þrist og Þór komin með 17 stiga forskot 42:25 og útlitið ansi álitlegt fyrir heimakonur. En Adam var ekki lengi í Paradís því þarna hrökk allt í baklás hjá Þór og Valskonur gengu á lagið og tóku að saxa á forskot Þórs og héldu aftur þeim með þeim árangri að Þór skoraði aðeins 14 stig í þriðja leikhluta gegn 20 stiga Valskvenna. Þegar fjórði leikhlutinn hófst skildu 8 stig liðin að 53:45.

Lokaspretturinn var afar kaflaskiptur og þótt Þór hafi leitt allt til loka þá hleyptu Valskonur mikilli spennu í leikinn og fyrr en varði var munurinn aðeins 3 stig 56:53. Þá tóku heimakonur við sér og bættu í og slitu sig frá gestunum og þegar fjórar mínútur lifðu leiks var forskotið aftur orðið 10 stig 66:56. Síðustu mínútur leiksins einkenndust af mikilli baráttu og hvorug liðið tilbúið að leggja árar í bát enda mikið undir. Bæði lið gerðu fjölmörg mistök á lokasprettinum en Þórsarar heldur færri sem skilaði liðinu 12 stiga sigri 72:60.

Þegar upp er staðið verða þessi úrslit að teljast afar sanngjörn og Þórsstúlkur spiluðu vel úr þeim aðstæðum að þrír lykilleikmenn leiku síðari hluta leiksins á 4 villum hver, þær Maddie Esther og Amandine. Hjá Valskonum voru þær Dagbjört, Sara Líf komnar með 4 villur og Jiselle fékk sína fimmtu villu áður en yfir lauk.

Framlag leikmanna Þórs: Emma Karólína 18/6/0, Madison Anne 15/13/3, Amandine Toi 12/3/9, Eva Wium 11/4/3, Esther Fokke 8/4/1, Hrefna Ottósd. 3/0/0, Katrín Eva 3/3/0 og Hanna Gróa 2/2/0. Þá kom Karen Lind einnig við sögu en náði ekki að skora. 

Framlag leikmanna Vals: Dagbjört Dögg 18/4/0, Ásta Júlía 15/8/3, Alyssa Marie 10/6/2, Jiselle Thomas 7/3/7, Sara Líf 4/9/1, Guðbjörg Sverrisd. 4/1/0 og Anna Maria Kolyandrova 2/4/1.

Nánari tölfræði

Gangur leiks eftir leikhlutum: 21:13 / 18:12 (39:25) 14:20 / 19:15 = 72:60.

Liðin mætast í fjórða leik liðanna sunnudaginn 13. Apríl í Valsheimilinu og hefst leikurinn klukkan 19:00.

Myndasafn

Umfjöllun, myndir / Palli Jóh

Fréttir
- Auglýsing -