Jafnræði með liðunum fyrstu mínúturnar en síðan setja Valsmenn nokkra þrista og staðan orðin 6-14 þegar fyrsti leikhluti er hálfnaður. Þórsarar ná að stilla vörnina af og skotin byrja að detta ofaní hjá þeim og þeir minnka muninn í 13-17 þegar 3 mínútur eru eftir af fyrsta leikhlutanum. Valsmenn skora ekki körfu síðustu fjórar mínútur leikhlutans en Þórsarar setja þrjú vítaskot og staðan 16-17 í lok leikhlutans.
Þórsarar byrja annan leikhluta á þristi en fyrsta karfa Vals í sjö mínutur jafnar leikinn 20-20 eftir tvær mínútur í 2. leikhluta. Valsmenn eru í mestu vandræðum með að skora en Þór kemst í 28-20 þegar sex mínútur eru eftir af fyrri hálfleik, Þórsarar skorað 22-6 á síðustu níu mínútum! Valur tekur þá leikhlé og setur þrist að því loknu en Þórsvörninn er sterk og Valsmenn eru í vandræðum með að finna góð skot á meðan Þórsarar leika við hvern sinn fingur og komast í 40-27 þegar 2 mínútur eru eftir af leikhlutanum. Þórsarar vinna annan leikhluta 29-14 og staðan 45-31 í hálfleik.
Hvorugt liðið nær að skora fyrstu tvær mínútur þriðja leikhluta en Þórsarar skora fyrstu körfuna og auka forskotið, lítið sem bendir til þess að Valsmenn ætli að veita Þór einhverja keppni í þessum leik. Þórsarar komast í 52-34 forskot þegar 6 mínútur eru eftir, vörnin þeirra er ákveðin og firnasterk og Valsmönnum mislagðar hendur í sókninni. Ekkert gengur hjá Val að setja boltann ofan í körfuna og munurinn kominn í 21 stig 55-34 þegar leikhlutinn er hálfnaður. Valsmenn setja skyndilega tvo þrista í röð og minnka muninn í 15 stig 55-40 og Þór tekur leikhlé. Liðin skiptast á að skora næstu mínútur og staðan orðin 61-47 þegar 2:30 eru eftir. Þórsaar eru þó alltaf í bílstjórasætinu og auka muninn aftur í 21 stig 71-49. Valsmenn skora síðustu þrjú stigin og staðan fyrir lokaleikhlutann því 71-52.
Valsmenn byrja lokafjórðunginn á tveimur þristum en Þór svarar jafnharðan með þristi. Þórsarar standast öll áhlaup Valsmanna og leiða 79-60 þegar átta mínútur eru eftir. Munurinn helst í um 20 stigum og Þórsarar ætla ekkert að gefa eftir. Valsmenn missa Kára Jónsson útaf vegna meiðsla og erfiður leikur verður enn erfiðari fyrir liðið. Liðin skiptast á að skora síðustu mínútur leiksins og öruggur sigur Þórs staðreynd.
Valsmenn voru sterkari fyrstu 5 mínútur leiksins en eftir það var leikurinn eign Þórs en leikmenn liðsins léku við hvern sinn fingur bæði í sókn og vörn. Valsliðið náði ekki að spila sinn leik. Frábær leikur Þórsliðsins og verðskuldaður sigur 106-74.
Umfjöllun / Hannes Birgir