Trúlega áttu flestir von á jöfnum og spennandi leik þegar Þór og Skallagrímur mættust í þriðju umferð 1. deildar karla í körfubolta.
Leikmenn Skallagríms sem léku í efstu deild á síðasta tímabili byrjuðu leikinn ágætlega og höfðu í fullu tré við Þór og gott betur því þeir leiddu með sjö stigum eftir fyrsta leikhluta 20-27. En dæmið átti svo sannarlega eftir að snúast við svo um munaði því þegar upp var staðið hafði Þór 37 stiga sigur.
Gestirnir voru skrefinu á undan Þór fyrstu þrjár mínúturnar í öðrum leikhluta en í stöðunni 31-32 fyrir Skallagrím sögðu Þórsarar hingað og ekki lengra. Þórsarar tóku öll völd á vellinum og náðu mest 15 stiga forystu í leikhlutanum og höfðu 14 stiga forskot 52-38 í hálfleik. Þór vann leikhlutann 32-11.
Bæði lið höfðu tiltölulega hægt um sig í þriðja leikhluta en Þór þó alltaf skrefinu á undan og unnu leikhlutann 20-16 og höfðu 18 stiga forskot þegar þriðji leikhlutinn hófst 72-54.
Fjórði leikhlutinn var líkur þeim þriðja þar sem Þór hafði öll völd á vellinum sem gestirnir áttu engin svör við. Og engu skipti þótt Benni hafi undir lok leiks skipt flestum sterkustu leikmönnunum út fyrir reynslu minni leikmenn, þeir bara bættu í og kláruðu leikinn með miklum stæl.
Þór vann leikhlutann 31-12 og lokatölur leiksins urðu 103-66. Eins og tölurnar gefa til kynna voru yfirburðir Þórs miklir í leiknum. í kvöld kom vel í ljós að breidd Þórsliðsins er meiri en margan grunar eins og sjá má að byrjunarlið Þórs skoraði 49 stig en varamennirnir 54 stig.
Segja má að sigur Þórs hafi verið sigur liðsheildarinnar.
Líkt og fyrri daginn var Drew Lehman stigahæstur Þórsara með 30 stig 7 fráköst og 2 stoðsendingar. Danero Thomas var drjúgur í kvöld og skoraði 21 stig tók 5 fráköst. Fyrirliðinn Þröstur Leó var með 13 stig 10 fráköst og 4 stoðsendingar. Tryggvi Snær skoraði 11 stig og tók 12 fráköst, Sindri Davíðsson 7 stig, Elías Kristjánsson 5, Ragnar Helgi skoraði 4 stig og var með 11 stoðsendingar, Svavar Sigurðarson 4 stig þeir bræður Einar Ómar og Jón Ágúst Eyjólfssynir 3 stig hvor og Arnór Jónsson 2.
Í liði Skallagríms var Sigtryggur Arnar Björnsson stigahæstur með 21 stig, Kristófer Gíslason 19, Jean Rony Cadet 14, Atli Aðalsteinsson 5 og þeir Davíð Ásgeirsson, Hjalti Ásberg Þorleifsson og Þorsteinn Þórarinsson tvö stig hver og Hafþór Ingi Gunnarsson 1 stig.
Texti og myndir: Páll Jóhannesson (Thorsport.is)