spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÞór fyrstir til að leggja Keflavík í Blue Höllinni á tímabilinu

Þór fyrstir til að leggja Keflavík í Blue Höllinni á tímabilinu

Þór Þorlákshöfn gerði góða ferð til Keflavíkur þar sem liðið rúllaði heimamönnum upp í leik þar sem gestirnir voru sterkari frá byrjun. Lokatölur, 83-104 eftir að staðan í leikhléi var 44-55.

Það vantaði Hörð Axel og Jaka Brodnik í lið heimamanna, og munar um minna. Þá var það ekki á bætandi að Valur Orri Valsson fékk þrjár villur í fyrsta leikhluta og vermdi bekkinn lengst af í öðrum leikhluta.

Það var líka eitthvað andleysi í Keflvíkingum strax frá byrjun; nánast eins og leikmenn hefðu ekki trú á að þeir gætu unnið Þórsara. Þórsarar voru betri allan leiktímann þótt það tæki þá dágóðan tíma að bíta heimanenn endanlega af sér; það var ekki fyrr en í lokaleikhlutanum, en samt sem áður hafði maður það alltaf á tilfinningunni að gestirnir hefðu leikinn ávallt í hendi sér.

Það er ljóst að erfitt er fyrir Keflavík að vera lengi án Jaka Brodnik og Harðar Axels, en liðið á þó að gera mun betur en það sýndi í kvöld; mun væntanlega svara því kalli á næstunni. Valur Orri var góður eins og oft áður – með mikinn leikskilning og góða yfirsýn. Milka átti fína spretti en annars var liðið einfaldlega ekki að ná dampi; sóknarleikurinn var alltof þvingaður á löngum köflum og flæðið því ekki gott, og því fór sem fór. 

Hjá Þór var það liðsheildin sem skóp sigurinn. Liðið er með afar góða áru yfir sér og minnir um margt á liðið sem varð meistari eftir skemmtilegt einvígi einmitt við Keflavík fyrir tveimur árum. Styrmir Snær sýndi enn og aftur að hér er á ferð besti leikmaður deildarinnar; þessi drengur er einfaldlega orðinn fáránlega góður í vörn og sókn og hrein unun að horfa á hann spila körfubolta. Jordan Semper varð bara betri eftir því sem leið á leikinn og hann er að hjálpa liðinu mikið í vörn, í fráköstum og vörðum skotum – og hann sýndi í 4. leikhluta að hann getur skorað. En annars er Þórsliðið að líta frábærlega út og þetta lið er til alls víst, það er næsta víst.


Fréttir
- Auglýsing -