Undanfarnar vikur hefur hópur fólks komið saman með það að markmiði að undirbúa endurkomu meistaraflokks kvenna í körfubolta hjá Þór Akureyri.
Í haust var tekin sú erfiða og sársaukafulla ákvörðun að draga kvennalið Þórs út úr keppni þar sem ekki náðist að fullmanna liðið en nú hefur stefnan verið sett á að skrá lið til keppni á ný, frá og með næsta tímabili. Undirbúningshópurinn hefur hafið leit að þjálfara en í það starf vilja menn fá öflugan einstakling sem getur haldið áfram því góða starfi sem Helgi Rúnar Bragason hafði unnið en hann var síðasti þjálfari meistaraflokks kvenna og gat ekki gefið sér kost áfram í verkefnið sökum anna. Einnig standa yfir þreyfingar um að stækka leikmannahópinn enn frekar og horfa menn til þess að íþrótta- og skólabærinn Akureyri sé frammúrskarandi kostur fyrir unga leikmenn sem vilja komast í góða framhaldsskóla og/eða háskóla samhliða því að spila körfubolta við topp aðstæður.

Góður efniviður er til staðar
Þór hefur á að skipa fjölmörgum ungum og efnilegum leikmönnum og nokkrar þeirra eiga leiki að baki með meistaraflokki þrátt fyrir ungan aldur. Þá er ekki ólíklegt að nokkrir eldri og reyndari leikmenn snúi aftur á völlinn og verði með í þessu spennandi verkefni. Að auki eru yngri flokkar kvenna hjá Þór mjög öflugir um þessar mundir og óhætt að segja að framtíðin sé björt.
Spennandi tímar
Stjórn körfuknattleiksdeildar Þórs fagnar krafti undibúningshópsins sem hefur lagt mikla vinnu með stjórninni í að undirbúa endurkomu meistaraflokks kvenna, þar hugsa menn stórt og horfa bjartsýn til framtíðar. Það er ljóst að stækka þarf leikmannahópinn og tillaga liggur nú þegar fyrir að aðstoða og styrkja leikmenn sem hafa áhuga á að koma norður í skóla eða sækja vinnu og taka slaginn með Þór Akureyri. Áhugasamir um þetta spennandi verkefni sem framundan er geta sett sig í samband við Sigríði Ingadóttur í síma 663-3774 eða Ólaf Ormsson í síma 840-2906. Einnig getur viðkomandi sent fyrirspurnir á netfangið [email protected].