Það var fátt sem benti til þess í hálfleik að heil 34 stig myndu skilja að lið Þórs og Selfoss þegar þau mættust í 2. umferð 1. deildar karla í körfubolta í kvöld. Gestirnir mættu ákveðnir til leiks og ljóst var að þeir ætluðu að selja sig dýrt. Þórsarar skoruðu fyrstu stig leiksins og gestirnir jöfnuðu strax og komust svo yfir 2-4 en það var í fyrsta og eina sinn í leiknum sem þeir höfðu forskot.
Þórsarar leiddu framan af fyrsta leikhluta með 1-5 stigum en gestirnir jafna 18-18 þegar fjórar mínútur lifðu af fyrsta leikhluta. Þórsarar tóku góðan sprett og skoruðu 13-4 og höfðu yfir 31-22 þegar annar leikhlutinn hófst.
Selfyssingar byrjuðu annan leikhlutann mun betur en Þór og eftir þriggja mínútna leik höfðu gestirnir skorað 2-8 og staðan 33-30 áður en Þórsarar vöknuðu aftur til lífsins. Þótt Þór hafi haft ögn betur það sem eftir lifði fyrri hálfleiks voru það þó gestirnir sem unnu leikhlutann 15-16 og staðan í hálfleik 46-40. Það verður ekki tekið af gestunum að þeir lögðu sig fram og gáfu Þór ekkert eftir og á sama tíma var spilamennska Þórs langt frá eðlilegri getu.
Það var svo allt annað að sjá til Þórs í síðari hálfleik og hvað það var sem Lárus sagði við sína menn í hálfleik þá virkaði það svo mikið er víst. Þórsarar hófu sem sagt síðari hálfleikinn á 10-0 kafla og staðan orðin 56-40 eftir þriggja og hálfs mínútna kafla. Gestirnir áttu fá svör við fínni spilamennsku Þórs sem náðu mest 18 stiga forskoti í leikhlutanum. Þór vann 3. Leikhlutann 23-12 og leiddi með 17 stigum 69-52 þegar lokakaflinn hófst.
Þórsarar höfðu tögl og hagldir í leiknum það sem eftir lifði leiks. Þórsarar sem fundu taktinn í þriðja leikhluta á sama tíma og ekkert gekk upp hjá Selfyssingum. Afleit spilamennska gestanna fór að fara í taugarnar á þeim og Þórsarar gengu á lagið. Undir lok leiksins gaf Lárus þeim Róbert Orra og Gunnari Auðunni dýrmætar mínútur sem fara í reynslubankann. Róbert Orri átti sérlega flotta innkomu og setti niður 3 stig og tók eitt frákast. Þeir Róbert Orri og Gunnar Auðunn spiluðu 2:25 mínútur. Þá fékk Baldur Örn rúmar 12 mínútur í leiknum Baldur náði ekki að skora en tók 2 fráköst og var með eina stoðsendingu. Fjórði ungi leikmaðurinn úr þessum magnaða 2001 árgangi, Júlíus Orri spilaði 25:30 mínútur hann skoraði 12 stig var með 4 fráköst og 2 stoðsendingar.
Leiknum lauk svo með 34 stiga sigri Þórs 95-61. Eftir sigurinn í kvöld er Þór á toppi deildarinnar eftir tvær umferðir með 4 stig líkt og Höttur og Hamar.
Gangur leiks eftir leikhlutum: 31-24 / 15-16 / 23-12 / 26/9
Senuþjófur kvöldsins var Damir Mijic sem átti frábæran leik og skoraði 29 stig tók 12 fráköst og var með eina stoðsendingu. Fyrirliðinn Ingvi Rafn var með 15 stig 7 fráköst og 6 stoðsendingar, Larry Thomas var með 13 stig 8 fráköst og 11 stoðsendingar. Júlíus Orri 12 stig 4 fráköst og 2 stoðsendingar, Kristján Pétur var einnig í stuði í kvöld og setti niður 14 stig þar af fjóra þrista í átta tilraunum og 7 fráköst. Pálmi Geir var með 8 stig 6 fráköst og 2 stoðsendingar og loks voru þeir Róbert Orri og Bjarni Rúnar með 3 stig hvor. Sindri Davíðs hefur oft átt betri leik en hann tók 2 fráköst í leiknum.
Hjá Selfossi var Ari Gylfason stigahæstur með 21 stig 8 fráköst og 2 stoðsendingar, Michael Rodriquez 14 stig 3 fráköst og 3 stoðsendingar, Maciek Klimaszewski 6 stig og 7 fráköst, Hlynur Freyr 5 stig 4 fráköst og 4 stoðsendingar og þeir Adam Smári, Matej Dlinac og Björn Ásgeir 4 stig hver og Elvar Ingi 3 stig.
Myndasafn
Viðtöl: