spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÞjófnaður í Smáranum – silfurskeið og sópur á mánudag?

Þjófnaður í Smáranum – silfurskeið og sópur á mánudag?

Undanúrslit Bónus-deildarinnar héldu áfram í kvöld í Smáranum. Gestirnir úr Garðabænum leiða einvígið 1-0 eftir góðan sigur í skemmtilegum fyrsta leik. Allir nema Stjörnumenn vonast auðvitað eftir Grindavíkursigri í kvöld, körfuboltaguðinn skuldar okkur klárlega oddaleiki og hann ætti að sjá til þess að gulir nái að jafna seríuna í kvöld. Kane og Pargo þurfa að leggja körfuboltaguðinum lið enda hjálpar Guð þeim sem hjálpa sér sjálfir, ekki satt Kúla góð?

Kúlan: ,,Jú vissulega! Merkilega gáfulega mælt. Kane og Pargo verða svolítið Guðlegir í kvöld og Grindvíkingar klára þennan þegar eitthvað er liðið á seinni hálfleik. Lokatölur verða 104-95“.

Byrjunarlið

Grindavík: Pargo, Kristófer Breki, Kane, Óli, Mortensen 

Stjarnan: Ægir, Hilmar, Febres, Orri, Rombley 

Gangur leiksins

Shaq Rombley var áberandi í byrjun leiks og heimamenn voru í vandræðum með að halda honum frá sóknarfráköstum og auðveldum stigum undir körfunni. Þrátt fyrir það stungu Grindvíkingar sér framúr og Baldur tók leikhlé strax eftir 4 mínútna leik í stöðunni 11-7. Eitthvað sá hann sem hann kunni ekki að meta en sumt af því hélt klárlega áfram eftir hléið. Gestirnir voru t.a.m. við alkul fyrir utan þriggja stiga línuna á meðan Kane, Breki og Lagio sáu um að skora fyrir sína menn. Grindjánar leiddu 31-21 eftir einn.

Stjörnumenn voru innan við 2 mínútur að tæta niður gula múrinn í upphafi annars leikhluta og minnkuðu muninn í 33-31. Gestunum var hins vegar áfram gersamlega fyrirmunað að setja niður þrist og Grindvíkingar byggðu aftur upp forskot, mest leiddu þeir 50-35 eftir smekklegt gegnumbrot frá Vali Orra. Þá voru 4 mínútur til leikhlés og þær mínútur voru eign Garðbæinga! Segja má að þeir hafi svarað 17-4 áhlaupi Grindvíkinga með 15-2 áhlaupi þessar síðustu fjórar mínútur. Staðan 52-50 í pásunni. Kane og Rombley leiddu stigaskorið með 15 stig hvor. Nokkur tölfræðiatriði stungu í augu í hálfleik, heimamenn höfðu tapað 11 boltum sem er alltof mikið en á móti kom herfileg þriggja stiga nýting gestanna sem stóð í 10%. 

Stjörnumenn komust yfir snemma í þriðja leikhluta í stöðunni 57-59 í fyrsta sinn síðan í byrjun leiks. Þá fylltist Pargo loksins andagift, hafði aðallega verið í því að tapa boltanum fram að þessu og setti 5 snögg stig fyrir sína menn. Grindvíkingar héldu naumu forskoti út leikhlutann, Valur Orri átti síðustu stig leikhlutans og staðan 73-67 fyrir lokafjórðunginn.

Júlíus Orri hefur komið inn af beknum hjá Stjörnunni með mjög jákvæða hluti að undanförnu og hann opnaði fjórða leikhlutann með þristi. Mortensen og Valur svöruðu jafnharðan og guli múrinn reis aftur í stöðunni 82-72. Hilmar Smári hristi þá af sér álögunum fyrir utan, smellti þremur þristum niður á skömmum tíma og enn og aftur voru Stjörnumenn komnir á hæla Grindvíkinga. Þegar rétt tæpar 3 mínútur voru eftir af leiknum fékk Óli Óla dæmd 2 stig eftir að Jase eða Rombley sló boltann af spjaldinu í sniðskoti en það tók heilan landsfund dómara til að koma því í gegn. Staðan var þá 97-90 og hlutirnir að verða snúnir fyrir gestina. Þegar 1:40 lifði leiks var enn 7 stig á milli liðanna, 99-92 og sigurinn í höfn, eða hvað? 

Nei, aldeilis ekki. Það var eins og að heimamenn vildu bara alls ekki klára þennan leik, hver klaufamistökin ráku önnur það sem eftir lifði leiks. Vissulega má hrósa ákafri vörn Stjörnumanna en þegar 10 sekúndur voru eftir stóðu leikar 99-98 og Stjarnan með boltann! Ekki kann undirritaður að útskýra hvers vegna en Ægir þurfti ekkert 10 sekúndur, 5 voru alveg nóg til að koma Stjörnunni yfir 99-100 með gaaalopnu sniðskoti! Klaufaskapurinn hélt áfram hjá gulum, hentu boltanum beint útaf í innkastinu og ekki urðu stigin fleiri í kvöld. Þjófnaður myndi einhver segja en það er ekkert spurt að því, Stjarnan leiðir 2-0!

Menn leiksins

Jase var stigahæstur gestanna með 24 stig og tók 6 fráköst. Ægir skoraði ekki nema 9 stig í kvöld en hann skoraði augljóslega mikilvægustu körfu leiksins og gaf 13 stoðsendingar. 

Kane var nánast guðlegur í kvöld, skaut mjög vel, setti 25 stig, tók 11 fráköst og gaf 9 stoðsendingar! Pargo var vissulega næstur með 21 stig en fær enga guðlega stimpla, tapaði 5 boltum og skaut alls ekki vel.

Kjarninn

Stjörnumenn stálu eiginlega þessum og Orri Gunn gat ekki annað en tekið að einhverju leyti undir það í stuttu spjalli eftir leik. Orri benti réttilega á að varnarleikur Stjörnunnar átti sinn þátt í því að Grindvíkingar töpuðu ótal boltum í kvöld og kannski má segja að það hafi bætt svolítið upp agalega þriggja stiga nýtingu Stjörnunnar sem endaði í 21% í kvöld. Hvað sem því líður eru Garðbæingar nú komnir 2-0 yfir, það er það eina sem skiptir máli og spurning hvort við sjáum sópa með silfurskeiðinni í stúkunni á mánudaginn.

Kúlan hafði nokkuð til síns máls hvað varðar Kane í kvöld en NBA-Pargo fær enga guðlega stimpla fyrir sinn leik í kvöld. Ekki að tapið sé eingöngu Pargo að kenna, samtals töpuðu Grindvíkingar 22 boltum og þá áttu nú bara tæplega skilið að vinna körfuboltaleik. Vissulega var vörn gestanna góð á löngum köflum en sumir af þessum töpuðu boltum voru agalega klaufalegir. Þvílíkt svekkelsi fyrir gula og stórt verkefni framundan hjá liðinu að rífa sig upp úr þessu og finna vilja og kraft til að svara fyrir sig á mánudaginn. Það verður vonandi ekki síðasta sjóferðin þetta tímabilið.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -