spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÞjófnaður á Völlunum

Þjófnaður á Völlunum

Vesalings Haukarnir í Vallar-Gettóinu hafa ekki unnið leik í Bónusdeildinni og komið að 6. umferðinni í kvöld. Hafnfirðingar voru reyndar eins nálægt því og það verður í síðasta leik en hvort það gefi fyrirheit um fyrsta sigurinn í kvöld er spurning fyrir Kúluna.

Gestirnir í Ólafssalnum fagra í kvöld komu af Álftanesinu. Eftir þunga byrjun hafa Álftirnar unnið síðustu 2 leiki og verða að teljast líklegar til að taka þann þriðja í röð gegn botnliðinu, eða hvað?

Kúlan: ,,Voru Álftnesingar ekki að vinna ÍR naumlega um daginn? Nesið horfir í það, Kjartan Atli lemur virðingu í sína menn, mæta grimmir og vinna 80-95.“

Byrjunarlið

Haukar: Fat, Birkir Hrafn, Seppe, Jolly, Everage

Álftanes: Okeke, Haukur, Klonaras, Hössi, Jones

Gangur leiksins

Það ætlar ekki af Álftnesingum að ganga, tvær framlengingar í byrjun tímabils og nú maraþonupphitun vegna tæknilegra vandamála í Ólafssal! Eftir lengstu upphitun tímabilsins hófust leikar og sem betur fer var leikurinn bara nokkuð fjörugur og skemmtilegur. Leikurinn fór vel af stað fyrir botnliðið, Jolly kom Haukum í 14-10 með svakalegu tröllatroði og Everage bætti 2 stigum við í kjölfarið. Heimamenn héldu sér nokkrum stigum yfir út fyrsta leikhlutann, staðan 28-25 eftir einn.

Leikurinn var í góðu jafnvægi framan af í öðrum leikhluta. Dúi kom ljómandi sprækur af bekknum að vanda og jafnaði leika á línunni í 32-32 eftir körfu góða. Það dró svo nokkuð til tíðinda um miðjan leikhlutann þegar gestirnir fengu boltann ítrekað beinlínis gefins frá Haukamönnum. Álftnesingar nýttu sér það, tóku frumkvæðið í leiknum og settu stöðuna í 37-41. Maté leystist upp í frumeindir sínar af bræði, myrti stól og tók leikhlé. Það hafði ekki tilætluð áhrif en botnliðið þó vel inn í leiknum í hálfleik, gestirnir 44-51 yfir.

Hálfleiksræðan hefur verið góð hjá Maté því Haukamenn byrjuðu síðari hálfleik frábærlega. Eftir tvær og hálfa kom Everage sínum mönnum 55-54 yfir! Þrátt fyrir leikhlé Kjartans skömmu síðar syrti enn í álinn fyrir gestina eftir þrist frá Hilmari Arnar – heimamenn 8 yfir, 63-55. Næstu mínúturnar var bara ekkert skorað og það virtist taka botnliðið alveg á taugum að vera yfir! Jones braut ísinn með frekar viðbjóðslegum flautuþristi en það var þriðja eða fjórða skot Álftnesinga í sömu sókninni. Það virtist sparka heimamönnum upp úr taugaáfallinu en Jones setti skömmu síðar bara annan flautuþrist eftir tóma vitleysu í sókn gestanna. Staðan var eftir þessar senur 67-61 og enn tvær mínútur eftir af leikhutanum. Fyrir lokaleikhlutann tókst gestunum að skera forskotið niður um helming, 71-68.

Maté tókst að róa taugar sinna manna í leikhlutaskiptunum og jafnvel þó gestirnir hafi jafnað leika í byrjun fjórða leikhluta tókst Haukum að byggja aftur upp nokkurra stiga forystu. Þegar tæpar 4 mínútur lifðu leiks voru þeir aftur komnir 8 stigum yfir, 83-75. Dauðafæri á fyrstu stigunum! Andrew Jones skemmdi hins vegar partýið með enn einum neyðarflautuþristi og setti svo annan hefðbundnari mjög stuttu síðar. Þegar 2 og hálf voru eftir voru gestirnir búnir að jafna. Aftur jöfnuðu þeir þegar rétt rúm mínúta var eftir, staðan 86-86 og allt í járnum. Everage átti þá þriggja stiga skot sem var eins nálægt því að fara ofan í og hugsast getur án þess að fara ofaní! Dúi spýttist eins og eldibrandur upp völlinn og komst alla leið í sniðskot. Everage mun ekki sofna snemma í kvöld því einhvern veginn vildi sniðskot hans ekki fara rétta leið í næstu sókn og Klonaras bar ránsfenginn lokametrana í kjölfarið. 86-91 sigur þjófanna af Nesinu!

Menn leiksins

Andrew Jones var sannkallaður neyðarkall í kvöld, setti 3 rosalega neyðarflautuþrista þegar gestunum virtust vera allar bjargir bannaðar. Hann endaði með 31 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar. Okeke var næstur með 15 stig og 11 fráköst. Dúi skilaði svo gríðarlega mikilvægu framlagi af bekknum, setti 11 stig og gaf 6 stoðsendingar.

Tyson Jolly var verulega góður í kvöld, skoraði 22 stig, tók 12 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Erfitt að kvarta yfir því. Everage var næstur með 20 stig og gaf 6 stoðsendingar en maðurinn var samt sem áður alveg fáránlega óheppinn með nokkur skota sinna í kvöld.

Kjarninn

Haukar stóðu við marklínuna…en voguðu sér bara ekki yfir hana! Allir sem fylgjast með íþróttum hafa oft séð svona lagað áður. Þetta er einhver íþróttasálfræðipæling sem er mjög áhugaverð en gersamlega óþolandi fyrir Hauka og önnur lið sem eru í sambærilegri. Allir, jafnvel Álftnesingar, hljóta að kenna í brjósti um Hauka að leik loknum. Undirritaður vonar innilega að Haukar vinni næsta leik.

Hinir hæfustu lifa af segir einhvers staðar. Það er auðvelt að stela frá þeim sem minna mega sín, hafa lítið sjálfstraust og takmarkaða trú. Án flautuneyðarþristanna þriggja hefðu gestirnir aldrei náð að lauma stigunum ofan í sinn poka í kvöld. Kjartan tekur tæplega nokkurn skapaðan hlut út úr þessum leik nema ránsfeng upp á 2 stig og fullvissu um það að liðið þarf að gera mikið betur gegn Grindavík í næsta leik ætli þeir sér svo mikið að eiga séns.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -