Nú um helgina verður haldið ársþing KKÍ þar sem kosið verður um breytingu á reglu um erlenda leikmenn í efstu deildum karla og kvenna. Eru það höfuðborgarsvæðis-félögin Valur, Stjarnan, KR og Haukar sem leggja tillöguna fram.
Til þess að rifja aðeins upp. Árið 2017 sendir Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) frá sér rökstutt álit varðandi þágildandi 4+1 reglu sem var í íslenskum körfubolta, sem í raun var þannig að á vellinum þyrftu alltaf að vera fjórir íslenskir leikmenn. Taldi ESA að verið væri að brjóta reglur um frjálst flæði vinnuafls innan evrópska efnahagssvæðissins. KKÍ svaraði með því að fara að óskum þeirra og takmarka aðeins leikmenn sem koma utan Evrópu, en hefta ekki atvinnumöguleika annarra Evrópumanna í íslenskum deildum.
Ný tillaga höfuðborgarfélaganna leggur til litla breytingu á „gömlu“ 4+1 reglunni, eða að í stað þess að fjórir íslenskir leikmenn þurfi að vera á vellinum, verði þeir nú aðeins þrír. Tillaga sem, ef samþykkt, mun óumdeilanlega mismuna leikmönnum eftir þjóðerni innan evrópska efnahagssvæðissins líkt og 4+1 gerði á sínum tíma og ekki samræmast kröfu um frjálst flæði vinnuafls.
Efstu deildir á Íslandi í dag:
1 leikmaður á vellinum utan EU og engar takmarkanir á leikmönnum sem koma innan EU.
Efstu deildir á Íslandi ef þjóðernistillaga höfuðborgarfélaganna verður samþykkt:
Öllum stundum verða að vera þrír íslenskir leikmenn á vellinum. Aðeins einn leikmaður utan EU má vera á vellinum í einu. Sem í raun væri þannig að aðeins einn EU leikmaður væri leyfður hverju sinni, þ.e. ef að viðkomand lið væri með leikmann utan EU á vellinum.
Til samanburðar við þessa breytingartillögu er áhugavert að líta á hvernig sambærilegar reglur eru í efstu deildum annarra Norðurlanda:
Danmörk: 3 leikmenn utan EU og engar takmarkanir á leikmönnum innan EU. Engar takmarkanir á hverjir skulu vera inni á velli.
Svíþjóð: 4 erlendir leikmenn utan eða innan EU. Engar takmarkanir á hverjir skulu vera inni á velli.
Finnland: 4 erlendir leikmenn utan eða innan EU. Engar takmarkanir á hverjir skulu vera inni á velli.
Noregur: 2 leikmenn utan EU. Engar takmarkanir á EU leikmönnum í liði. 2 Norðmenn inni á velli hverju sinni.
Hverjar sem ástæður tillögunnar eru breytir það því ekki að verði þær samþykktar, væri um að ræða allra hörðustu takmarkanir á leikmönnum vegna þjóðernis á Norðurlöndunum. Í raun væri eina deildin sem kæmi eitthvað nálægt þessu í Noregi, en það væri þá aðeins varðandi hversu margir uppaldir leikmenn væru inni á vellinum í einu. Samt sem áður færri þar, sem og eru reglur varðandi leikmenn utan EU rýmri. Það skal tekið fram að reglan í Noregi hefur ekki verið kærð til ESA og því er ekki ljóst hvernig væri tekið á henni ef svo yrði gert, líkt og gert var á Íslandi varðandi 4+1 árið 2016.
Hér fyrir neðan er hægt að lesa tillögu höfuðborgarfélaganna í heild, sem einnig inniheldur einhverskonar mismunun eftir því hvar lið eru staðsett. Þar sem það er lagt til að t.d. félög í Borgarnesi, Keflavík og á Selfossi séu á sama svæði og liðin á höfuðborgarsvæðinu og líti því sömu reglum.
Þjóðernistillaga höfuðborgarfélaganna:
“Í úrvalsdeild karla og kvenna og 1. deild karla og kvenna skulu alltaf vera a.m.k. þrír leikmenn sem eru uppaldir hjá félögum innan KKÍ(homegrown) á leikvelli samtímis. Hverju liði er aldrei heimilt að vera með fleiri en einn erlendan leikmann á leikvelli sem ekki er ríkisborgari lands innan EES-ríkis (ESB) og telst ekki sem Bosman-A leikmaður skv. lögum UTL hverju sinni. Regla þessi gildir fyrir lið sem eru á suðvesturhorn landsins, sé lið utan suðvesturshorns skulu alltaf vera a.m.k. tveir leikmenn sem eru uppaldir hjá félögum innan KKÍ.
Í bikarkeppni og meistarakeppni KKÍ gilda sömu reglur og um úrvalsdeild karla og kvenna og 1. deild karla og kvenna.
Uppaldir leikmenn teljast þeir sem hafa spilað og æft körfubolta innan félaga KKÍ í þrjú ár hið minnsta frá og með árinu sem leikmaðurinn verður 13 ára til og með árinu sem hann verður 21 árs eða er með íslenskt ríkisfang.
Erlendur ríkisborgari sem hefur samkvæmt Þjóðskrá haft lögheimili á Íslandi samfellt í þrjú ár telst ekki sem erlendur leikmaður í reglugerð þessari og skal hann framvísa nauðsynlegum gögnum til skrifstofu KKÍ, búsetuvottorð frá Þjóðskrá. KKÍ staðfestir að hann teljist með íslenskum ríkisborgurum samkvæmt þessari reglugerð. Sá sem hefur leiktíðina sem erlendur leikmaður telst sem slíkur út leiktíðina og skal miða við fyrsta leik í móti á vegum KKÍ (Íslandsmót, bikarkeppnir eða önnur mót/leikir á vegum KKÍ), nema að fenginni undanþágu aga- og úrskurðanefndar.
Félögum er heimilt að sækja um undanþágu varðandi þriggja ára fasta búsetu til stjórnar KKÍ telji það sig hafa fyrir því haldbær rök að viðkomandi leikmaður sé búinn að skapa sér heimili til framtíðar á landinu.
Til suðvesturhorns landsins teljast lið sem eru á atvinnusvæði höfuðborgarsvæðis, frá og með Selfossi / Þorlákshöfn í austri til og með Borgarnesi í vestri.
Brjóti félag gegn þessari reglu telst félag hafa notað ólöglegan leikmann og skal sæta viðurlögum samkvæmt 8. grein reglugerðar um körfuknattleiksmót.“