Í kvöld geta Haukastúlkur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn en til þess þurfa þær að sækja sigur hjá núverandi meisturum Snæfell á þeirra parketi. Pálína Gunnlaugsdóttir hefur staðið í þessum sporum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. 5 sinnum hefur Pálína hampað þeim stóra (2 með Haukum og 3 með Keflavík) og sú tölfræði ein og sér ætti að nýtast Haukum í slíkum leik eins og í kvöld.
"Já það er rétt hjá þér ég hef gert þetta nokkrum sinnum áður og það er eitt af þeim atriðum sem á eftir að hjálpa okkur i kvöld. Reynslan. Reynsla er mjög dýrmæt og við getum notað hana til þess að stilla stress, spennu og þessa andlegu þætti sem þurfa að vera 100% í lagi í svona leikjum. Annars er það liðsheildin hjá okkur sem þarf að standa saman, við erum með frábæra einstaklinga innan liðsins en það þurfa allir leikmenn að leggja sitt af mörkum til þess að vinna leikinn – hvort sem leikmaður spilar 40 mín eða 0 mín. Það er ástæða fyrir þvi að þetta heitir liðsíþrótt, það hafa allir hlutverk og ef við skilum allar okkar hlutverki þá getum við gengið stoltar frá borði með fallegan pening um hálsinn." sagði Pálína í samtali.
Vafaatriði úr síðast leik hafa verið á vörum fólks nú milli leikjana og átti Pálína svo sannarlega hlut í öðru atvikinu þar sem að hún slær í átt að Bryndísi Guðmundsdóttir og á ögurstundu missa Snæfell knöttinn.
"Í svona leikjum eru 100 atriði vafasöm atriði og í byrjun leiks er ákveðin lína sem dómararnir setja hvað þeir ætla að leyfa og hvað þeir ætla ekki að leyfa, að mínu mati var þetta í takt við þeirra línu í þessum leik, mikil harka, mikill barningur, alvöru stríð. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að þegar þeir mæta til þess að dæma leikina þá mæta þeir eins og við hin, til þess að gera sitt besta. Þeir munu gera mistök eins og allir og hvort sem mistökin gerast í 1 leikhluta eða 4 leikhluta þá breyta þau alltaf leiknum." sagði Pálína að lokum.