spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2025Þetta er slóvaska liðið sem Ísland mætir kl. 17:00 í dag

Þetta er slóvaska liðið sem Ísland mætir kl. 17:00 í dag

Ísland mun kl. 17:00 í dag leika lokaleik sinn í undankeppni EuroBasket 2025 gegn Slóvakíu í Bratislava. Efstar í riðil Íslands, og öruggar áfram, eru Tyrkland með fimm sigra í jafn mörgum leikjum. Í öðru sæti riðilsins er Slóvakía með þrjá sigra og tvö töp. Í þriðja til fjórða sæti eru svo Ísland og Rúmenía með einn sigur og fjögur töp, en sökum innbyrðisviðureignar er Rúmenía í sætinu fyrir ofan.

Hérna er heimasíða mótsins

Fyrri leikur liðanna í keppninni fór fram 7. nóvember síðastliðinn, en þá vann Slóvakía lið Íslands með 8 stigum, 70-78. Í þeim leik var Danielle Rodriguez best í liði Íslands í dag með 29 stig og 5 fráköst. Þá bætti Thelma Dís Ágústsdóttir við 11 stigum, 4 stoðsendingum og Kolbrún María Ármannsdóttir var með 10 stig og 3 fráköst. Fyrir Slóvakíu voru atkvæðamestar Ivana Jakubcova með 15 stig, 6 fráköst, Nikola Dudasova með 14 stig, 4 fráköst og Miroslava Mistinova með 9 stig, 10 fráköst.

Af þeim vantar í leik dagsins Kolbrúnu Maríu Ármannsdóttur hjá Íslandi, en í liði Slóvakíu vantar ekki neina af þeirra lykilleikmönnum frá síðasta leik liðanna. Bæði lið eru þó með nýja mikilvæga leikmenn í liðinu, Ísland að sjálfsögðu búnar að endurheimta Söru Rún Hinriksdóttur aftur úr meiðslum og þá voru Natalia Martiskova og Terezia Palenikova báðar atkvæðamiklar fyrir Slóvakíu í stórum sigri þeirra gegn Rúmeníu fyrir helgi, en hvorug þeirra tók þátt í fyrri leik liðanna í nóvember.

Þeir 12 leikmenn sem verða í liði Slóvakíu í dag leika í mörgum deildum í Evrópu, aðeins nokkrar leika í heimalandinu, en hinar eru á mála hjá sterkum liðum á Spáni, í Tékklandi, Hvíta Rússlandi, Þýskalandi, Tyrklandi og Póllandi.

Hér má sjá hóp Slóvakíu fyrir leik dagsins

Ljóst er að um gríðarlega sterkan hóp er að ræða hjá Slóvakíu. Það er ekki að undra, því liðið á þess kost að komast á lokamótið sem ein besta þjóðin í 2. sæti riðils, en til þess þurfa þær að vinna Ísland með sem mestum mun. Lið Slóvakíu eru nokkrum sætum fyrir ofan Ísland á styrkleikalista FIBA, en þær eru 17. sterkasta þjóð Evrópu samkvæmt honum á meðan Ísland er í 32. sætinu.

Ísland mætir Slóvakíu í lokaleik undankeppni EuroBasket 2025 í dag 9. febrúar í beinni útsendingu á RÚV 2 kl. 17:00.

Fréttir
- Auglýsing -