Íslenska landsliðið er komið til Þýskalands þar sem það mun æfa næstu daga fyrir síðustu tvo leiki undankeppni EuroBasket 2025.
Fyrri leikur liðsins er gegn Ungverjalandi úti á fimmtudag áður en þeir loka undankeppninni með viðureign gegn Tyrklandi heima í Laugardalshöll komandi sunnudag.
13 leikmanna hópur Íslands fyrir lokaleiki undankeppni EuroBasket
Íslenska liðið er í dauðafæri að tryggja sig áfram á lokamótið sem fram fer í lok ágúst í Póllandi, Lettlandi, Finnlandi og á Kýpur. Nokkrir möguleikar eru í stöðunni til þess að tryggja sig áfram fyrir þessa síðustu tvo leiki, en sá einfaldasti er að vinna Ungverjaland úti í Szombathely á fimmtudag. Fyrri leikur liðanna fór fram í Laugardalshöll fyrir um ári síðan, en í honum hafði Ísland nokkuð góðan fimm stiga sigur.
Bestur í liði Íslands í leiknum fyrir ári síðan var Tryggvi Snær Hlinason með 14 stig og 11 fráköst. Honum næstir voru Elvar Már Friðriksson með 13 stig, 5 fráköst, 8 stoðsendingar og Martin Hermannsson með 17 stig og 4 fráköst. Fyrir ungverska liðið var það Gyorgy Goloman sem dró vagninn með 12 stigum og 8 fráköstum.
Ungverjaland tilkynnti 16 leikmanna hóp sinn fyrir síðustu tvo leiki sína á dögunum. Hann má sjá hér fyrir neðan, en flestir leikmanna liðsins leika í ungversku deildinni. Fyrir utan þá er leika í heimalandinu eru þeir með Golomán György sem er liðsfélagi Jóns Axels Guðmundssonar hjá toppliði Primera FEB deildarinnar á Spáni og fyrrum liðsfélaga Martins Hermannssonar hjá Valencia Nate Reuvers. Nate mun vera í annað skipti að leika fyrir ungverska landsliðið, en hann er fæddur og uppalinn í Bandaríkjunum.
16 leikmanna hópur Ungverjalands:
Durázi Krisztofer (Egis Körmend)
Filipovity Markó (Alba Fehérvár)
Golomán György (Silbö San Pablo Burgos, Spanyolország)
Keller Ákos (Falco-Vulcano Energia KC Szombathely)
Lukács Norbert (NHSZ-Szolnoki Olajbányász)
Meleg Gergő (NKA Universitas Pécs)
Mócsán Bálint (DEAC)
Molnár Márton (Sopron KC)
Pallai Tamás (NHSZ-Szolnoki Olajbányász)
Perl Zoltán (Falco-Vulcano Energia KC Szombathely)
Pongó Marcell (Falco-Vulcano Energia KC Szombathely)
Nate Reuvers (Valencia Basket, Spanyolország)
Somogyi Ádám (Río Breogán, Spanyolország)
Takács Kristóf (Sopron KC)
Váradi Benedek (Falco-Vulcano Energia KC Szombathely)
Vojvoda Dávid (Alba Fehérvár)