Undir 20 ára lið karla mætir heimamönnum í Grikklandi kl. 15:30 í dag í 16 liða úrslitum Evrópumótsins í Heraklion.
Í riðlakeppni mótsins hafði Ísland einn sigur, gegn Slóveníu, tapaði naumlega gegn Þýskalandi í öðrum leik og síðan nokkuð stórt fyrir Frakklandi í þriðja og síðasta leiknum. Grikkland hafði hinsvegar unnið tvo og tapað einum, en þeir unnu bæði Pólland og Króatíu, en töpuðu fyrir Litháen.
Í nýlegri grein á heimasíðu mótsins er Evangelos Zougris leikmaður Grikklands talinn einn af átta bestu leikmönnum keppninnar til þessa, en hann hefur skilað 14 stigum, 11 fráköstum, 2 stoðsendingum, 2 stolnum boltum og vörðu skoti að meðaltali í leik.
Um hann segir á síðunni:
“Lefteris Mantzoukas hefur skorað flest stig fyrir Grikkland á mótinu en Evangelos Zougris er sá sem hefur slegið í gegn. Átján ára gamli framherjinn skilaði 24 stiga og 17 frákösta frammistöðu í opnunarleik Grikklands gegn Póllandi og hefur virst óstöðvandi síðan. Evangelos hefur líka áhrif á vörn Grikklands, þar sem hann leiðir liðið í fráköstum, stolnum boltum og vörðum skotum.”
Leikur Íslands gegn Grikklandi hefst kl. 15:30 og verður í beinni útsendingu hér.
Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil