Snorri Vignisson, leikmaður Breiðabliks, stóð fyrir svörum í bikardrættinum í hádeginu í dag. Blikarnir unnu sannfærandi sigur á úrvalsdeildarliði ÍR á sunnudaginn og eru því komnir áfram í 16-liða úrslit Geysisbikarsins. Hvernig fóru þeir að því að vinna ÍR-inga?
“Við mættum rólegir og tilbúnir, vissum að þeir væru gott lið sem gæti átt frábæra leiki gegn geggjuðum liðum. Þeir eru samt sem áður lið sem hægt er að sigra. Eru mjög kraftmiklir en þegar að krafturinn dvín þá getum við unnið þá.”
Blikar mættu einmitt inn í leikinn án nokkurrar pressu og spiluðu á köflum áreynslulausan og einbeittan bolta.
“Já, lítil pressa á okkur. Okkur langaði bara að vinna þá.”
Blikinn efnilegi, sem er 22 á árinu og hefur sýnt flotta takta á köflum, bendir réttilega á að topplið 1. deildar karla geta hæglega unnið verri lið úrvalsdeildarinnar því að pressan er minni á neðri deildarliðinu.
“ÍR er reyndar ekki þar, þeir eru góðir, en þú veist hvað ég meina.”
Breiðablik dróst gegn Val í Origo-höllinni og það verður jafn ærið verkefni og ÍR, að sögn Snorra.
“Fyrstu viðbrögð eru að þetta verður skemmtilegt. Við viljum ekki að þetta sé gefið og Valur er klárlega ekki gefinn leikur. Mætum vonandi bara með sama krafti og við sýndum í ÍR-leiknum.”
Það verður ekki hjá því komist að benda á að “öskubusku-liðið” frá því í fyrra hafi verið slegið út og að von gæti verið á að Blikar verði nýja Öskubusku ævintýrið í bikarnum í ár.
“Þetta er einn leikur, verum alveg rólegir. Í körfubolta getur þetta alveg gerst einu sinni, bíðum eftir næstu 2-3 leikjum með að kalla þetta eitthvað slíkt.”
Viðureign Vals og Breiðabliks verður 2.-7. desember og þá komust við að því hvort að Breiðablik komi aftur á óvart eða hvort að það fari eins fyrir þeim og öðrum grænum hlutum á veturna.