Það fer að styttast í annan endan á körfuboltakeppni Ólympíuleikanna í Tókýó en átta liða úrslit leikanna fóru fram í nótt og í morgun.
Það virðist ekkert geta stöðvað Luka Doncic og félaga í Slóveníu en liðið er ósigrað á mótinu. Ekki nóg með það heldur hefur Luka aldrei tapað með landsliðinu. Slóvenar unnu Þjóðverja örugglega í gærkvöldi 94-70 þar sem Luka var með 20 stig, 8 fráköst og 11 stoðsendingu. Verri Dragic bróðirinn Zoran var þá stigahæstur með 27 stig.
Bandaríkin sem hafa ekki verið sannfærandi á mótinu virðast vera að ná vopnum sínum og unnu Spánverja nokkuð örugglega 81-95. Kevin Durant var með 29 stig fyrir Bandaríkin en Ricky Rubio átti góðan dag fyrir Spán og endaði með 37 stig.
Frakkland komst einnig í undanúrslitin með sigri á Ítölum í evrópuslag 75-84. Nikolas Batum endaði með 15 stig og 14 fráköstum fyrir frakka. Þá valtaði Ástralía gjörsamlega yfir Argentínu 97-59 þar sem Patty Mills endaði með 18 stig fyrir Ástrali. Luis Scola lauk landsliðsferli sínum með 7 stig fyrir Argentínu.
Undanúrslitin líta því svona út:
Bandaríkin – Ástralía aðfaranótt fimmtudagsins 5. ágúst kl 04:15
Frakkland – Slóvenía fimmtudaginn 5. ágúst kl 11:00
Úrslitaleikurinn fer fram 7. ágúst næstkomandi en óhætt er að segja að spennandi leikir eru framundan.