Keflvíkingurinn Thelma Dís Ágústsdóttir mun leika með háskólaliði Ball State University í Indiana í Bandaríkjunum á næsta tímabili. Þetta staðfesti hún við Körfuna fyrr í dag. Ball State leikur í Mið-Ameríkudeild efstu deildar háskólaboltans í Bandaríkjunum og skilaði þriðja besta sigurhlutfalli 12 liða deildarinnar í fyrra (78%)
Samkvæmt þjálfara liðsins, Brady Sallee, er skólinn hæstánægður með að bæta Thelmu í hóp liðsins. Segir hann hana sigursælan leikmann sem hafi alþjóðlega reynslu og að hún búi bæði yfir vinnusemi og hæfileikum sóknarlega sem eigi eftir að nýtast liðinu. Segir hann hana ennfrekar eiga eftir að falla vel að því kerfi sem liðið fer eftir og að þau hlakki til að fá hana út eftir að hún klárar að spila fyrir Ísland í U20 Evrópumóti sumarsins.
Ljóst er að um mikla blóðtöku að ræða fyrir Keflavík, en Thelma skilaði 15 stigum, 7 fráköstum og 4 stoðsendingum að meðaltali í leik á síðasta tímabili þar sem að liðið fór í undanúrslit og vann bikarkeppnina. Þá var hún tímabilið á undan valinn besti leikmaður Dominos deildarinnar þegar að Keflavík vann tvöfalt.