Keflvíkingurinn Thelma Dís Ágústsdóttir hefur leikið með háskólaliði Ball State University í Indiana í Bandaríkjunum síðan árið 2018, en Ball State leikur í Mið-Ameríkudeild efstu deildar háskólaboltans.
Þrátt fyrir að hafa verið aðeins 19 ára þegar hún hélt út hafði Thelma Dís unnið alla titla með Keflavík og verið valin verðmætasti leikmaður deildarinnar áður en hún fór. Þá var hún aðeins 18 ára farin að spila fyrir íslenska a landsliðið, en vegna ósamræmis á milli háskólaboltans og FIBA hefur hún ekki náð að leika nema 16 leiki, þar sem sá síðasti var 2019. Með Ball State hefur hún þó gert vel síðustu tímabil, þar sem fljótlega eftir að hún kom var hún farin að gegna mikilvægu hlutverki fyrir liðið.
Ball State átti góðu gengi að fagna á þessu síðasta tímabili Thelmu með liðinu, þar sem liðið skilaði 26 sigrum og aðeins 9 töpum, en Thelma byrjaði alla leiki tímabilsins og var með 13 stig og 4 fráköst að meðaltali í leik. Þá var henni boðið að taka þátt í þriggja stiga keppni lokamóts Marsfársins, en var með 42% skotnýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna á tímabilinu með Ball State.
Karfan hafði samband við Thelmu Dís og spurði hana út í tímann sinn með Ball State, hvaða áhrif háskólaárin hafi haft á hana og hvað framtíðin bæri í skauti sér.
Nú ert þú að klára háskólaferilinn þinn, ertu sátt með hvað þú náðir að gera þarna úti?
“Já, ég er bara mjög sátt. Ég er búin að bæta mig helling sem leikmaður og búin að þroskast alveg ótrúlega mikið. Ég er líka búin að kynnast svo mikið af frábæru fólki og liðsfélögum sem eru sumar hverjar bestu vinkonur mínar í dag.”
Hvað var erfiðast við að fara í háskóla í Bandaríkjunum?
“Að koma á algjörlega nýjan stað þar sem maður þekkir í rauninni ekki neinn, þar sem menningin og sérstaklega körfuboltinn er öðruvísi heldur en maður er vanur heima. Það tók alveg smá tíma að venjast öllu en það eru allir svo vingjarnlegir og tilbúnir að hjálpa með hvað sem er.”
Hvers áttu eftir að sakna mest frá Muncie Indiana?
“Alls fólksins sem ég er búin að kynnast. Sama hversu vel það gengur í körfunni, skólanum eða hverju sem er, þá er erfitt að vera í burtu frá fjölskyldu og vinum ef maður hefur ekki gott fólk í kringum sig. Eins og ég sagði áðan er ég búin að kynnast bestu vinkonum mínum hérna þannig að það er erfitt að hugsa til þess að ég sé að fara heim í sumar og komi ekki aftur í ágúst.”
Hvaða áhrif hafði þetta á þig sem leikmann?
“Áður en ég fór út spilaði ég mest sem fjarki á póstinum, ég gat skotið en þurfti að vera mjög opin til að taka þau, sérstaklega fyrir utan þriggja stiga línuna. Núna mundi ég hins vegar bara segja að ég væri þriggja stiga skytta. Mér finnst ég vera öruggari með boltann heldur en þegar ég fór út og er náttúrulega bara búin að læra fullt á þessum fimm árum.”
Hver var sætasti sigurinn á háskólaferlinum?
“Örugglega þegar við unnum Toledo í undanúrslitunum í fyrra. Við enduðum í fimmta sæti í deildinni og þær efstar eftir að hafa tapað held ég bara fjórum leikjum allt tímabilið þannig að það voru ekki margir sem höfðu trú á okkur.”
Hvað var þyngsta tapið?
“Þegar við töpuðum fyrir Buffalo í úrslitunum í sömu keppni. Við vorum loksins komnar í úrslitaleikinn í fyrsta skipti í einhver 12 eða 13 ár og tvær búnar að slíta krossband í liðinu þannig að það var svekkjandi að ná ekki að vinna titilinn og komast í March Madness.”
Ertu sátt með hvernig ykkur gekk á þessu síðasta tímabili?
“Já, ég er bara þó nokkuð sátt. Það var mjög svekkjandi að tapa leiknum í MAC undanúrslitunum þar sem okkur fannst við vera meira en nógu góðar til að klára það. Við unnum samt sem áður fullt af leikjum og spiluðum skemmtilegan bolta þannig það er erfitt að vera eitthvað alltof ósátt með tímabilið”
Fylgist væntanlega eitthvað með Subway deildinni þarna úti, hvernig líst þér á hvernig tímabilið hefur þróast fyrir Keflavík?
“Já, er búin að ná að fylgjast eitthvað aðeins með. Vil nýta tækifærið og óska stelpunum í Kef til hamingju með deildarmeistaratitilinn. Líst vel á það sem ég er búin að sjá hjá þeim í vetur. Ég næ væntanlega að fylgjast meira með núna þegar ég er búin í körfunni þannig að vonandi ná þær bara að klára þetta!”
Verður þú áfram úti á næsta tímabili, eða hvert er förinni heitið eftir þetta?
“Það er eiginlega bara alveg óljóst. Ég hafði hugsað mér að koma heim og spila í Subway deildinni næsta vetur og sjá svo til. Það eru margar dyr búnar að opnast fyrir mig eftir að tímabilið kláraðist og sérstaklega eftir að ég fékk boð í þriggja stiga keppnina þannig að það verður bara að koma í ljós. Ég mundi samt segja að ég væri opin fyrir flestu.”