spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaThelma Dís eftir annað árið með Ball State "Veit að ég er...

Thelma Dís eftir annað árið með Ball State “Veit að ég er búin að bæta mig helling síðan ég fór út”

Fyrir rétt rúmum tveimur árum ákvað framherji Keflavíkur, Thelma Dís Ágústsdóttir að leggja land undir fót og kveðja uppeldisfélag sitt í Keflavík og ganga til liðs við Ball State Cardinals í Indiana í bandaríska háskólaboltanum.

Thelma lék á sínum tíma upp alla yngri flokka Keflavíkur og upp í meistaraflokk, þar sem að hún fór fyrir liðinu þegar þær unnu bæði bikar og Íslandsmeistaratitil tímabilið 2016-17, en eftir það tímabil var hún valin leikmaður ársins í Dominos deildinni, þá aðeins 18 ára gömul. Tímabilið eftir náði Keflavík að verja bikarmeistaratitilinn, en mistókst það með Íslandsmeistaratitilinn, þrátt fyrir að hafa endað í öðru sæti deildarkeppninnar. Þá hefur Thelma einnig verið hluti af öllum yngri landsliðum Íslands og A landsliðinu síðan árið 2016.

Ball State er í körfuboltafylkinu Indiana, en Cardinals leika í miðríkja hluta efstu deildar bandaríska háskólaboltans.

Karfan setti sig í samband við Thelmu og spurði hana aðeins út í lífið í Muncie, Indiana og þetta síðasta tímabil í háskólaboltanum.

Hvernig fannst þér þetta annað ár ganga hjá þér hjá Ball State?

“Mér fannst þetta ár ganga bara þó nokkuð vel. Við unnum töluvert fleiri leiki en í fyrra og enduðum í öðru sæti í deildinni sem gerði tímabilið mun skemmtilegra. Bæði árin mín er ég búin að vera í stóru hlutverki í liðinu og veit að ég er búin að bæta mig helling síðan ég fór út”

Hvernig er lífið í Indiana ólíkt því sem það er í Keflavík?

“Lífið utan körfuboltans er ekkert alltof ólíkt því heima í Keflavík. Muncie sem er bærinn sem skólinn er staðsettur í er ekkert mjög stór þannig að hann minnir smá á Keflavík að því leiti. Hann er “háskólabær” þar sem meirihluti íbúanna tengist skólanum á einhvern hátt, hvort sem það eru nemendur eða starfsmenn”

Er mikill munur á körfuboltanum sem þú þurftir að aðlagast þarna og hér heima, hver er helsti munurinn?

“Ég fann fyrir töluverðum mun fyrsta árið en finnst ég vera búin að aðlagast því nokkuð vel. Það eru auðvitað sumar reglur úti sem eru öðruvísi eins og varðandi skotklukku og leikhlé og síðan eru flestir leikmennirnir mun sterkari og hraðari heldur en heima. Ég kom inn í liðið í fyrra sem fjarki og voru hinir fjarkarnir sem ég átti að matcha upp á móti mun stærri og sterkari en ég. Ég er því núna að spila sem þristur sem hentar mér mun betur þarna úti”

Nú er liðið að leika í fyrstu deild háskólaboltans, er mikill munur á tímabilinu þar og heima í Dominos deildinni?

“Helsti munurinn á tímabilinu úti og heima er hversu mikið leikjaálagið er. Tímabilið er um fimm mánuðir en við spilum miklu fleiri leiki en í Dominos deildinni. Allir deildarleikirnir eru spilaðir eftir jól sem eru um 18 talsins og eru þeir keyrðir áfram út febrúar sem þýðir 2-3 leikir í viku í 2 mánuði. Það er líka lögð mjög mikil áhersla á að scouta liðin sem við keppum við, bæði að þekkja kerfin þeirra og hvað helstu leikmennirnir gera sem ég hafði í rauninni ekkert kynnst heima”

Nú endaði tímabilið nokkuð snemma hjá flestum í körfuboltaheiminum vegna Covid-19 faraldursins, voru það mikil vonbrigði, náðuð þið að klára körfuboltatímabilið og námsönnina?

“Það var auðvitað mjög leiðinlegt að heyra að við fengjum ekki að klára tímabilið. Við náðum að spila einn leik í MAC úrslitakeppninni áður en allt var flautað af daginn eftir. Við fengum að vita kvöldið áður en við áttum að keppa að almenningur fengi ekki að koma á leikinn þannig að höllin var nánast tóm sem var frekar skrýtið. Við áttum svo að taka þátt í WNIT mótinu en það varð auðvitað ekkert úr því. Öll kennsla fer núna fram í gegnum netið og klárast í byrjun maí”

Gerum ráð fyrir að þú farir aftur út næsta haust, hver eru helstu markmiðin körfuboltalega fyrir næsta tímabil?

“Já ég fer aftur út næsta tímabil. Ég ætla að nýta sumarið í að vinna í veikleikunum mínum og styrkja mig til að geta hjálpað liðinu ennþá meira að vinna jafn marga leiki ef ekki fleiri en við gerðum þetta tímabil”

Fréttir
- Auglýsing -