10:17
{mosimage}
Bakvörðurinn efnilegi hjá Fjölni, Hörður Axel Vilhjálmsson, hefur sagt sig úr íslenska landsliðinu fyrir leikina í B-deild Evrópukeppninnar þar sem hann er á leiðinni til reynslu hjá einu frægasta körfuboltaliði Evrópu, Benetton Treviso frá Ítalíu. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag og á www.visir.is
Hörður sem spilaði sína fyrstu A-landsleiki á Smáþjóðaleikunum er lykilmaður 1988-landsliðsins sem hefur orðið Norðurlandameistari bæði hjá 16 og 18 ára liðum. Hörður kynnti sér aðstæður hjá ítalska liðinu í byrjun sumars en heyrði síðan ekkert meira fyrr en í fyrrakvöld þegar hann var farinn að undirbúa sig að fara með landsliðinu til Finnlands.
„Ég fékk símtal í gær þar sem þeir sögðust vilja fá mig út í mánuð. Ég æfi með liðinu og spila með þeim einhverja æfingaleiki og fæ tækifæri til að sýna þeim hvað ég get. Ég hef samt ekkert talað við neina að þjálfurunum og þetta kemur bara í gegnum umboðsmanninn minn," segir Hörður sem var mjög hrifinn þegar hann heimsótti liðið í júní. „Það er mjög flott hjá liðinu, það sá ég þegar ég fór út í sumar. Þetta var því eitthvað sem ég gat ekki sleppt. Það var samt mjög erfið ákvörðun að segja sig úr landsliðinu. Maður var kominn inn í hópinn og langaði til að spila þessa leiki og þá sérstaklega Finnaleikinn," segir Hörður Axel, en meðal leikmanna sem hafa spilað með ítalska liðinu er Toni Kukoc.
Hörður Axel kláraði síðasta tímabil með Fjölni en hann segir allt óráðið hvar hann muni spila takist honum ekki að sanna sig fyrir þjálfurum ítalska liðsins. Hann ætli að einbeita sér að æfingunum hjá Benetton og svo verði framhaldið bara að koma í ljós.
„Þeir sögðu mér að þetta væri allt undir mér komið og hvernig að ég standi mig," segir Hörður Axel. Benetton Treviso er með tvo aðra leikstjórnendur innan sinna raða en leikstjórnandi liðsins í fyrra, Grikkinn Nikolaos Zisis, er búinn að semja við CSKA í Rússlandi. Í stað hans hefur liðið fengið til sín Bandaríkjamanninn Lionel Chalmers og tyrkneska landsliðsmanninn Engin Atsür.